[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
eigin skrif | umfjöllun | sýningarstjórn | útgáfa | vinnustofa


 
[ útlínur ]
gylfi gíslason /
ríkisútvarpið sjónvarp /
2005 >
Landslagsmálverk var ráðandi í íslenskri myndlist lengi fram eftir 20. öld. Það er á milli 1960 og 1970 sem að ný efni, ný hugsun og ný myndgerð kemur fram og þá hopaði málverkið og jafnvel talað um á tímabili að það væri dautt. Nú hefur komið fram ungt fólk sem málar á ný -jafnvel landslag- og viðmælandi minn, Einar Garibaldi Eiríksson, málar landslag og tengir það táknmáli nútímans.

[ gylfi ]

Einar Garibaldi, hvers konar málari ert þú, hvernig lítur þú á þig og hvað ertu að fást við í málverkinu?

[ einar garibaldi ]
Þetta er nú frekar flókin spurning, hverskonar málari...

[ gylfi ]
...landslagsmálari?

[ einar garibaldi ]
Jú ætli það ekki, líklega fyrst og fremst landslagsmálari, þó kannski megi segja að nálgun mín við viðfangsefnið sé öðruvísi en í hefðbundnum skilningi þess orðs. Til dæmis hef ég ekki áhuga á að horfa beint til náttúrunnar, þ.e.a.s. að horfa út um gluggann í átt að henni, heldur hef ég fremur áhuga á því hvernig náttúrunni hefur verið breytt í tungumál, í það sem við köllum landslagsmyndir. Þannig má líklega segja að ég sé að mála myndir af myndum fremur en myndir af náttúrunni sjálfri.

[ gylfi ]
Þú átt við þennan millilið þarna á milli, þegar búið er að breyta náttúrunni í vísindalega niðurstöðu, með "útlínum", hæðarmælingum o.s.frv.?

[ einar garibaldi ]
Já meðal annars, því þetta tel ég mun áhugaverðara viðfangsefni. Og það er einmitt þess vegna sem ég hef beint augum mínum að kortagerðinni að undanförnu, því að þar eru þessar umbreytingar svo augljósar, um það hvernig þekkingu er breytt í tungumál. Þannig er líka óhætt að segja að ég hafi ríkari áhuga á sýnileika tungmálsins fremur en augans. Eiginlega hef ég tekið svolítið meðvitaða ákvörðun um að snúa baki við náttúrunni, að horfa alls ekki á hana.

[ gylfi ]
Já en þú ert eftir sem áður að gera myndir af landinu.

[ einar garibaldi ]
Ekki beint, það er miklu fremur tungumálið og virkni þess sem er mín fyrirmynd. Þ.e.a.s. hvernig þetta tungumál kennir okkur að horfa, lætur okkur skynja og upplifa heiminn, um það hvernig við erum í rauninni fangar þessa tungumáls. Oft á tíðum held ég t.d. að við sjáum ekki náttúruna fyrir þessu tungumáli, það eru komin svo mörg lög af því ofan á náttúruna að við erum löngu hætt að sjá hana. Allavega upplifum við þessa náttúru ekki lengur í neinum beinum tengslum við hana, allra síst ég, sem er borgarbarn og upplifi náttúruna bara í gegnum bílrúðu, í sjónvarpinu eða...

[ gylfi ]
...en nú ert þú líka leiðsögumaður?

[ einar garibaldi ]
Jú vissulega, en þar er ég líka staddur á sömu slóðum, fastur í heimi mynda, þar sem mér er ekið frá einu skiltinu til annars, í heimi þar sem búið er að ákveða fyrir mig hvar ég á að stoppa.

[ gylfi ]
Og þar finnur þú skiltið "áhugaverður staður"?

[ einar garibaldi ]
Já, þar finnum við slík skilti. En það er líka tómarými á milli þeirra staða sem kallaðir eru "áhugaverðir", matreiðsla ferðamannaiðnaðarins er bara slík að mér er bannað að stoppa í þessu tómarými, þrátt fyrir að þar sér náttúrulega ekkert síður áhugaverða staði að finna.

[ gylfi ]
Já það eru auðvitað bara viðkomustaðirnir sem eru merktir.

[ einar garibaldi ]
Að sjálfsögðu og einmitt þessvegna er ég að reyna afbyggja þetta tungumál. Með því að fjarlægja skiltið "áhugaverður staður" var ég einungis að reyna hjálpa til, þannig að sá sem kæmi akandi eftir þjóðvegi númer eitt vissi ekki lengur hvar hann ætti að stoppa og færi nú að spyrja sjálfan sig þessarar spurningar: býr fegurðin hérna megin við girðinguna eða hinumegin? Og hætta þannig að láta Vegagerðina eða kortagerðarmennina ákveða þetta fyrir sig.

[ gylfi ]
En segðu mér, þú ert fæddur á Ísafirði árið 1964 og flyst síðan til Reykjavíkur og býrð í Þingholtunum. Hvað með myndlistaráhuga í bernsku?

[ einar garibaldi ]
Ætli hann hafi ekki fyrst vaknað fyrir alvöru þegar ég sá sýninguna með Erró á Listahátíð í Reykjavík, líklega árið 1978.

[ gylfi ]
Og þá ert þú bara 14 ára gutti.

[ einar garibaldi ]
Já, enda veit ég ekki hvort það voru eingöngu verkin hans sem kveiktu með mér þennan áhuga á myndlist, eða hvort það hafi verið sögusagnirnar um að hann ætti hús á Spáni, konu frá Thailandi o.s.frv. Allt var þetta jafn spennandi og ég fór að hugsa hvort að þarna væri ekki eitthvað fyrir mig. Eitthvað sem ég ætti að leggja fyrir mig í alvöru, þó að enn hafi ekki ræst úr þessum barnslegu draumum mínum.

[ gylfi ]
Og síðan ferðu í Myndlista- og handíðaskólann?

[ einar garibaldi ]
Já, en það var nú kannski svolítið fyrir slysni að ég byrjaði í Myndlista- og handíðaskólanum, því að ég byrjaði mjög ungur, eða strax eftir grunnskóla. Ég var í rauninni á leiðinni þessa hefðbundnu leið, en var hvattur til að þreyta inntökuprófið og skreið inn yngstur umsækjanda. Ég sé ekki eftir því, en þetta voru vissulega nokkur átök sem fólust í að takast á við þann heim sem skólinn hafði að geyma, ekki síst þar sem skólafélagar mínir voru flestir töluvert eldri og þroskaðari en ég.

[ gylfi ]
En þú lifðir það af og byrjar snemma að sýna.

[ einar garibaldi ]
Já, það er náttúrulega órjúfanlegur hluti hvers myndlistarnáms, að takast á við að klára hlutina og ganga þannig frá þeim að þeir séu sýningarhæfir.

[ gylfi ]
Ég man eftir því þegar þú varst að koma fyrst fram, að þá sýndur þú einhverskonar "sófamyndir" eftir þig.

[ einar garibaldi ]
Já það er rétt. Á sýningunni Ungir myndlistarmenn sem haldin var á Kjarvalsstöðum árið 1983. Þetta var á sama tíma og Gullströndin andar stóð yfir í Jötunshúsinu, þ.e.a.s. þessi Nýja málverks bylgja, sem ég tók nú samt aldrei beinan þátt í sem hreyfingu, þó að hún væri auðvitað tengd því að halla sér að málverkinu. En ég hugsaði aldrei um að í því fælist að taka meðvitaða afstöðu gegn einhverju öðru, enda hefur mér alla tíð þótt sjálfsagt að mála. Ég var það ungur að ég var ekkert að pæla í að þetta væri einhver höfnun á Konsepti eða öðrum listhreyfingum. Þvert á móti komu mín málverk sem sjálfsagður hlutur. Og hvað "sófamyndirnar" varðar, þá sýna þær að allt frá byrjun hef ég í rauninni verið að mála myndir af myndum. Því ég málaði ekki myndir af "raunverulegum" sófum, heldur sófunum eins og ég þekkti þá úr fyrstu IKEA bæklingunum, en það er einmitt upp úr slíkum myndheimi sem verk mín spretta. Því heimurinn sem að við lifum og hrærumst í núna, er uppfullur af myndum allsstaðar, hvort sem það er í táknmáli auglýsinganna, í tímaritum eða kvikmyndum. Ég hef því smámsaman verið að færa mig inn í þennan heim -eða réttara sagt, verið gleyptur af honum.

[ gylfi ]
En síðan ferðu í framhaldsnám til Ítalíu, sem er nokkuð óvenjulegt fyrir íslenska myndlistarmenn. Þó að vissulega eigum við nokkra sem stundað hafa myndlistarnám á Ítalíu, þá hafa þeir ekki verið margir sem stundað hafa þar nám á síðustu misserum.

[ einar garibaldi ]
Já, á meðan ég var í námi við Myndlista- og handíðaskólanum, þá fórum við í skólaferðalag til Ítalíu. Þá má segja að ég hafi fengið "bakteríuna", auk þess sem að á þessum tíma bar Nýja málverkið auðvitað hæst Annarsvegar þennan Ný-expressionisma í   Norður Evrópu, Þýskalandi, Hollandi og víðar, á meðan að á Ítalíu var það Transavantguardían, eða "Handanframúrstefnan" með þá Chia, Clemente og Cucchi í fararbroddi. Og þeirra verk heilluðu mig fyrir ríkari ljóðrænu en gerðist í verkum þeirra fyrir norðan. En auðvitað voru það ekkert síður mjölræmurnar, vínsopinn og því um líkt sem dró mig suður á bóginn. Auk þess langaði mig til að leyta á nýjar slóðir, þar sem að á þessum árum fóru flestir í framhaldsnám til Hollands eða Þýskalands. En Ítalía varð kannski ekki síður fyrir valinu vegna áhuga míns á sögu og menningu, enda hefur það ævinlega verið sterkur þráður í mér að velta mér upp úr sögu og reyna þá sérstaklega að skoða myndlistana í gegnum hana. Ekki þessa "krónólógísku" röð listasögunnar, heldur að reyna að sjá það sem myndlistin er að fást við í dag í sögulegu samhengi.

[ gylfi ]
Finnst þér þá ekki vanta á það hérna hjá okkur að við setjum hlutina í sögulegt samhengi?

[ einar garibaldi ]
Svona já og nei! Auðvitað er íslensk myndlistarsaga afskaplega stutt. Annarsvegar höfum við lítið að byggja á, en á móti kemur ákveðið frelsi og er það í senn ákveðinn kostur og galli.

[ gylfi ]
Já, miklar hefðir geta auðvitað reynst lamandi. En hvað með Ítalíu, þér hefur ekki dottið í hug að setjast þar að?

[ einar garibaldi ]
Nei, og þó kannski, en ég sé það þó fremur fyrir mér einhverntíma í framtíðinni.

[ gylfi ]
Jæja, Einar Garibaldi. Hvað segir þú mér um myndlist? Afhverju erum við að gera myndlist? Til hvers erum við að þessu?

[ einar garibaldi ]
Kannski til að skilja heiminn betur, að reyna orða hlutina þannig að þeir verði okkur á einhvern hátt skiljanlegir.

[ gylfi ]
Og þessi skilningur myndlistarmannsins, hann fer aftur út í samfélagið, inn í auglýsingaheiminn o.s.frv., en á vissan hátt þá ert þú að taka til baka þegar þú tekur skiltin, kortin og táknmálið í myndlist þinni?

[ einar garibaldi ]
Já, ég er að vissu leyti að fjalla um virknina, þ.e. að greina hvernig þetta tungumál er skilið, notað og misnotað. Reyna að sjá hvernig það er túlkað og mistúlkað. Ekki síst hvað varðar myndlistina, en þar er stöðugt verið að líta framhjá mikilvægri "kortagerð", sem er ótrúlegt miðað við þær mikilvægu rannsóknir og kortlagningar sem þar eiga sér stað, en þær eru ævinlega gjaldfelldar þó þær taki á mikilvægum þáttum í lífi okkar og samfélagi. Því miður erum við allt of gjörn á að líta framhjá mikilvægi hennar, ekki síst með því að einblýna um of á hinn fagurfræðilega þátt hennar. Líkt og það væri hlutverk myndlistar að myndskreyta, en það er auðvitað eitthvað sem myndlistin hefur ekki áhuga á að gera. Það að búa til myndir til þess eins að skreyta, er algerlega gagnstætt allri alvöru myndlist, því myndlist sem tekur sig alvarlega hefur ævinlega eitthvað merkingarbært fram að færa um samfélagið. Þá er ég ekki endilega að tala um neinn sérstakan sannleika, þó málarinn hafi það til dæmis fram yfir marga aðra að ekki er hægt að rengja hans fullyrðingar. Því listamenn leggja ævinlega verk sín fram sem tillögur, og þau krefjast þess að vera tekin alvarlega sem ákveðin samræða. Verk hans verða til í samfélagi, þau kvikna ekki í tómarými og kalla ævinlega eftir áhorfandanum, að hann komi og hefji samræðu við það sem blasir við augum. Myndlistarmenn eru ekki að "hrópa" neinn sannleika, þeir eru ekki að búa til hina "einu réttu" mynd af heiminum, miklu frekar að varpa ljósi á heiminn eða kannski meira að setja upp spegla sem hjálpa okkur til að átta okkur á hver við erum, hvernig við lítum út og hvernig við erum innréttuð.

[ gylfi ]
Og bætir hann heiminn eitthvað með því?

[ einar garibaldi ]
Já, að sjálfsögðu. Öll samskipti eru til bóta og þar er myndlistin hvorki undanskilin eða verri en hvað annað. Auk þess myndi ég vilja segja að hún sé okkur algerlega nauðsynleg, því að í rauninni er það svo margt sem við getum ekki áttað okkur á öðruvísi en að nota hennar tungumál.

[ gylfi ]
Áttu þá við táknmálið eða kannski fegurðina?

[ einar garibaldi ]
Ekki beint, þó fegurðin hangi kannski alltaf á spýtunni. Ég er samt á því að eitt það allra versta sem komið hafi fyrir íslenska myndlist sé fegurð íslenskrar náttúru og ég bíð eftir þeim degi að henni verði sökkt undir eitt uppistöðulónið, því að þá getum við byrjað á hreinu blaði.

[ gylfi ]
Hvað með viðbrögð við sýningum þínum. Við skulum gefa okkur að einhver sé á leiðina á málverkasýningu, en hjá þér, er allt sem við honum blasir táknmál, landakort eða skilti, jafnvel þó að þau séu blettótt eða skafin -sem minnir mig á að ég þykist greina ítölsk áhrif í verkum þínum.

[ einar garibaldi ]
Já, sumir hérna heima hafa nefnt slík áhrif, að litirnir séu líkt og gripnir upp úr ítölskum jarðvegi og annað því um líkt. Á sama tíma hafa kollegar mínir fyrir sunnan talað um kalt norrænt ljós, þannig að þetta fer algerlega eftir því hvernig þú vilt tengja hverju sinni. Eftir sem áður myndi ég ekki segja að áhrifin væru svo ýkja suðræn, þar sem ég er fyrst og fremst að vinna með sögu íslenskrar málaralistar. Það er hún sem er mín megin fyrirmynd og þar er auðvitað finna ástæðuna fyrir því að ég vil vinna hér, því að ég er í samræðu við þennan "norræna" bakgrunn í verkum mínum.

[ gylfi ]
Og hverjir eru það þá helst sem eru þínir uppáhalds málarar?

[ einar garibaldi ]
Ég get ekki sagt að ég eigi mér sérstakt uppáhald. En síðan er það auðvitað Kjarval. Ekki af því að ég hafi valið hann, því ég bæði hata hann og elska, allt eftir því hvernig mér líður eða á hvað ég er að horfa. Það er eðlilegt þar sem að það var ákaflega fjölbreytt og misjafnt sem hann skildi eftir sig, hinsvegar er það algerlega nauðsynlegt að horfast í augu við áhrif hans, enda eru þau manni algerlega í blóð borin.

[ gylfi ]
Tengist þetta eitthvað sýningunni þinni "Flogið yfir Heklu", þar sem þú safnaðir á annaðhundruð verka er tengdust eldfjallinu?

[ einar garibaldi ]
Já, kannski. Ég var sýningarstjóri að þeirri sýningu, sem að upphaflega hafði vaknað hjá mér sem ákveðin tilraun eða löngun til að takast á við sögu íslenskrar myndlistar -og þá sérstaklega landslagsmyndahefðina- og reyna að gera það með svolítið öðruvísi hætti en gert hefur verið á þessum hefðbundnu sumarsýningum stóru safnanna. Og til að "fókusera" svolítið ákvað ég að velja Heklu, enda vill svo vel til að finna má af henni myndir frá örófi alda, eða því sem næst. Hekla er auðvitað þekkt fyrirbæri í sögunni og því tilvalið að kanna tengsl okkar við náttúruna með því að rannsaka hvernig hún hefur verið myndgerð í gegnum tíðina. Og þá á ég við allt í senn; myndlist, kortagerð, auglýsingar, ljósmyndir, ferðabæklinga, veðurfréttum eða hjá Ómari Ragnarssyni í fréttatímum sjónvarpsins, þ.e.a.s. ekki eingöngu í myndlist.

[ gylfi ]
Hvað með sýninguna þar sem þú fékkst lánaða fleka sem notaðir eru til að mála hvít tákn á göturnar; strætisvagnareinar, púnktalínur, örvar o.s.frv. Þessi verk kallar þú "fundin málverk"?

[ einar garibaldi ]
Já, vegna þess að ég "fann" þau. Ég ákvað að gera þessa fleka að mínum. Þetta er líklega eins og svo oft áður í myndlistinni, að þeir sem fást við hana byrja að horfa á heiminn með öðruvísi augum en aðrir. Í mínu tilviki virkar þetta þannig að ég sé málverk allsstaðar. Ég breyti öllu í málverk. Þannig lá beint við að ég breytti þessum merkjaflekum Reykjavíkurborgar í málverk eftir mig. Í þessu felst ekkert nýtt innan myndlistar, innan hennar hefur þetta verið gert áratugum -ef ekki árhundruðum saman.

[ gylfi ]
Eitt af því sem þú hefur verið að fást við er kennsla og nú gegnir þú prófessorstöðu í myndlist við Listaháskóla Íslands. Hvernig er nálgun þín við kennsluna?

[ einar garibaldi ]
Þessi staða gerir það að verkum að nálgun mín er afskaplega fjölbreytileg, þar fléttast saman bæði verklegir og fræðilegir hlutir. Stundum eru það fyrirlestrar, hópkennsla eða í samræðum við einstaka nemendur. En auk þessa fylgir stöðunni að sjálfsögðu mikið stjórnunarstarf, umstang og skipulagning í kringum uppbyggingu kennslunnar.

[ gylfi ]
Og hvernig gengur að halda nemendum við efnið?

[ einar garibaldi ]
Vel.

[ gylfi ]
Nú erið þið ung stofnum, hvað skortir ykkur helst?

[ einar garibaldi ]
Ætli það sé ekki húsnæði, því auðvitað hefur draumurinn um sameinaðan Listaháskóla -undir einu þaki- þar sem að hinar ýmsu listgreinar koma saman ekki ræst að fullu. Í dag er skólinn dreyfður um alla borg og oftar en ekki í fremur óhentugu húsnæði. En við vonum að þetta standi til bóta og aðalatriðið í því sambandi er að við fáum húsnæði þar sem við gætum opnað skólann betur út á við og þar með orðið virkari þáttakendur í menningarlífi borgarinnar.

[ gylfi ]
Í verkum þínum með kortin þá vinnur þú bæði með yfirlitsmyndina af Íslandi, Ísland í hlutum, táknmál kortagerðarinnar, sem og númerakerfin sem notuð eru við að skipta því niður og merkja. Í sinni einföldustu mynd mætti því segja að þau séu algerlega óhlutbundin málverk, líkt og í þessu verki þar sem þú ert að vinna með kort af Borgarfirði Eystri. Segðu mér, hvert liggur leiðin?

[ einar garibaldi ]
Ég hef stundum reynt að útskýra leið mína með því að tala um að ég stefni á að mála mig út í horn. En þá á ég m.a. við að leiðin sé í sífelldri mótun. Með því að mála sig horn úr horni má kannski segja að maður sé staddur á svipuðum slóðum, en þrátt fyrir það eiga margir erfitt með að staðsetja mig sökum skorts á einhverju stílfræðilegu samhengi. Ég tek það þó ekki nærri mér, enda hugsa ég ævinlega hverja sýningu sem einstaka, þ.e. að ég tek hana næstum því sem ákveðið rannsóknarverkefni er þarf að lúta ákveðnum forsendum. Ég á það jafnvel til að gefa mér ákveðnar breytur til að ganga út frá og þannig sé ég ekki beint fyrir mér að ég eigi eftir að "þróast" í einhverja ákveðna átt. Kannski helst að ég eigi eftir að hverfa inn í einhverskonar speglasal, þar sem ég eigi eftir að týnast í myndum sem eru ekki annað eftirgerðir annara mynda. Þróunin felst því eiginlega í stöðugri mynd af mynd af mynd af mynd. Og það sem ég er að reyna vinna með þessa stundina, er að búa til mynd sem er málverk sem er kort sem er málverk.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]