[ málverkið er tafl
]
sindri freysson /
morgunblaðið /
1993 >
|
Nýlega hófst í Norræna húsinu málverkasýning Einars Garibalda Eiríkssonar og stendur hún til 18. apríl eða næstu helgar. Sýningin nefnist Í votri gröf og á henni eru rúmlega 20 málverk, unnin með olíu og blandaðri tækni. Verkin eru öll unnin á síðastliðnum tveimur árum.
Einar Garibaldi er fæddur á Ísafirði árið 1964. Hann stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1980-1985, og við Accademia di Belle Arti di Brera í Mílanó 1986-1991. Hann hefur tekið þátt í níu samsýningum síðan 1983, og haldið fjórar einkasýningar síðan 1984, nú seinast á Ítalíu í fyrra.
Einar Garibaldi segir sýningina í Norræna húsinu endapunkt á ákveðnum ferli, sem síðan er upphafið að einhverju öðru. "Í votri gröf vísar bæði inn í verkin og til þeirrar kímilegu staðreyndar að ég er að sýna í kjallara úti í mýri," segir hann. "Síðan bíður maður í ofvæni eftir að rísa upp aftur og sjá hvað verður úr."
Flest öll verkin sýna útlínur mannvera í mismunandi römmum og rými. Í grein sem Aðalsteinn Ingólfsson ritar í sýningarskrá þar sem listamaðurinn er ávarpaður beint, segir: "Nóg er um afdrepin í málverkum þínum, íverustaði manngervinga sem virðast allt að því brjóstumkennanlegir, stöðluðu konunnar og staðlaða bindisláfsins sem er stundum eins og einn af innantómu körlunum hans Eliots. En þessir íverustaðir hjá þér líta stundum út eins og einangrunarklefar, grafhvelfingar, svo ekki sé minnst á móðurlíf."
Einnig bregður fyrir í verkunum útflatta saltfiskinum sem var í skjaldamerki Íslands fyrr á öldum, og tákni sem sjónvarpsáhorfendur ættu að þekkja vel. Einar Garibaldi segir að gestum létti ákaflega að geta séð kunnuglegar myndir í verkunum, enda eigi þær fremur að undirstrika svör sérhvers áhorfenda en einhver skilaboð af hans hálfu.
"Ég reyni að ná útfyrir orðið sem lokar, dregur hring, og beiti tungumáli myndlistarinnar til að ná fram sjónrænum skírskotunum. Ég lagði ekki af stað með einhverja heildarmynd í huga, en eftir á kemur ákveðin lína í ljós. Þó ekki eins og ég sé að koma ákveðnum boðum til skila, eða grunnþráðurinn sé til staðar. Ef það er einhver regla í mínum myndum þá er það kannski sú að setja mér ekki reglur, en vera þó meðvitaður um ákveðna hefð og vinna ekki gegn henni, heldur reyna að nýta sér hana, möguleikarnir eru óendalegir. Þetta er eins og að tefla skák, þar er allt hægt innan ákveðins ramma, jafnvel fyrir peð, peð eins og mig, bara að ná nú upp í áttunda reit."
^
|