![]() |
[ menningarveisla í farangrinum ] hulda stefánsdóttir / morgunblaðið / 1997 > |
Nýlistasafnið kynnir ítalska samtímalist með sýninguni Færur / Spostamenti. Þar eru verk 27 ungra ítalskra myndlista- og tónlistarmanna, HULDA STEFÁNSDÓTTIR ræddi við skipuleggjanda sýningarinnar, Einar Garibalda Eiríksson, myndlistarmann. Opnunarkvöld sýningarinnar ber upp á Menningarnótt í miðbænum. Sýningin hefst kl. 20.00 og stendur fram eftir kvöldi. Myndlistamennirnir eru 12 og koma allir frá Norður-Ítalíu, því svæði sem nefnt er Lombardía. Myndlistin er þó ekki allsráðandi, því tónlistin er veigamikill þáttur sýningarinnar og þar er á ferðinni hópur 16 tónskálda, tæknimanna og áhugafólks um notkun nýjustu tölvutækni við gerð elektrónískrar tónlistar. Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari, ætlar að frumflytja tvö tónverk kl. 22.00 og einhvern tímann um nóttina mun einn þátttakendanna fremja gjörning. Tónlistahópurinn kallar sig AGON og kemur frá Mílanó. Það er fyrir milligöngu Atla Ingólfssonar, tónskálds, sem hópurinn flytur verk sín hér. AGON-hópurinn hefur vakið alþjóðaathygli á undanförnum árum, en auk þess að reka hljóðver, vinnur hópurinn veigamikið brautryðjendastarf í kynningu, framleiðslu og vörslu á elektrónískri tónlist. Verkin sem Áshildur flytur eru einleiksverkið "Einsam" eftir Giorgio Colombo Taccani og "D'apre`es Hoquetus" eftir Michele Tadini, skrifað fyrir elektróník og flautu. Hljóðfæraleikarinn Domenico Bulla ætlar að flytja fyrsta hluta gjörningsins "Perforazioni" sem er hluti veigameira verks er stefnir að því að viðhalda þeim miklivægu tengslum sem Ísland hefur við Ítalíu í gegnum vísindaskáldsöguna Leyndardómar Snæfellsjökuls. Auk sýningar ítölsku listamannanna verður myndlist Valgerðar Hafstað kynnt í setustofu safnsins. Þar verða málverk sem Valgerður hefur unnið á sl. 5 árum. Rótað í hefðinni Einkennandi fyrir verk á sýningunni Færur/Spostamenti er frjálsleg notkun miðla, s.s. ljósmynda, innsetninga, myndbanda og gerninga. Færur er fornt íslenskt orð yfir farangur. Ítalir eiga til orðatiltækið menningarlegur farangur, Bagaglio Culturale, sem vísar til hins mikla menningararfs þjóðarinnar. Sýningarstjórinn, Einar Garibaldi, bjó á Ítalíu í allmörg ár. Í sýningarskrá lýsir hann því hversu ríkur þáttur menning og hefðir eru í daglegu lífi Ítala. En þrátt fyrir alla hefðina líti Ítalir á menningararf sinn sem einhvað sem þurfi stöðugt að róta í og endurskoða. Hvert hérað, hver borg og hvert þorp eigi sér sína sérstæðu menningu og Ítali er í raun kominn til útlanda í hvert sinn sem hann ferðast frá þorpinu sínu. Einar segir sýninguna alls ekki stefna að því að vera með þverskurð af ítalskri list. "Ég held að Ítalir séu að fást við hluti talsvert ólíka því sem við sjáum annars staðar og það getur verið spennandi að setja sig inn í þær hugmyndir," segir Einar. "Sýningin gengur kannski út á það að ferðast og sjá nýja hluti." Hann segir að á Ítalíu séu árekstrar milli ólíkra staða áberandi. Myndlistamenn séu alltaf að setja sig í nýtt samhengi með ferðum sínum á milli staða, rétt eins og þeir geri nú þegar þeir koma til Íslands. "Þeir opna og loka sínum ferðatöskum, stinga einhverju ofaní þær og taka annað úr og skilja eftir," segir Einar. Mikilvægi samræðunnar Ólafur Gíslason, listfræðingur, ritar í sýningarskrá að verk ítölsku listamannanna beri ríkjandi aðstæðum menningarinnar vitni. Tímar hinna stóru snillinga virðast endanlega liðnir og fegurðarímyndin hefur splundrast í ótal myndir og samfélög. Sú myndlist sem hér birtist byggi á rannsóknum hins brotakennda í tilverunni og hún byggi á mikilvægi samræðunnar. "Þeirrar samræðu sem er sér meðvituð um takmörk sín um leið og hún hvetur til mannlegrar samkenndar og samstöðu út yfir landamæri hinna afmörkuðu menningarheima og menningarafkima. Sú samstaða verður ekki framar um altækar lausnir. Hún verður miklu fremur um sameiginlegan skilning á því að tímar hinna altæku lausna eru liðnir." |
|
< | > | ||