[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
eigin skrif | umfjöllun | sýningarstjórn | útgáfa | vinnustofa


[ hugurinn leitar til baka ]
inga maría leifsdóttir /
morgunblaðið /
2001 >
Sumarsýningar Listasafns Reykjavíkur - Kjarvalsstaða verða opnaðar í kvöld og munu vera opnar gestum og gangandi í sumar frá og með morgundeginum. Um tvær sýningar er að ræða, sýninguna Flogið yfir Heklu í sýningarstjórn Einars Garibalda Eiríkssonar og sýningu Gretars Reynissonar sem ber yfirskriftina 1461 dagur. Sýningarnar tvær hafa mjög ólíkt yfirbragð og viðfangsefni þeirra eru sitt af hvorum toganum en eiga báðar erindi við nútímann og manneskjuna í dag og mynda um leið skemmtilega andstæðu við hvora aðra. Og á báðum sýningum leitar hugur áhorfandans ósjálfrátt til baka, hugurinn spyr: Hvar var ég í fyrra þann 17. júní? Eða á afmælisdaginn minn? Hvar sá ég síðast mynd af Heklu?

[ ... ]

Spilastokkar og olíumálverk
Sýningin Flogið yfir Heklu inniheldur myndverk úr hinum ólíklegustu jafnt sem líklegustu áttum sem öll eiga það þó sameiginlegt að tengjast Heklu og sýn myndlistarmanna og fólks yfirleitt á náttúruna. Þar kennir enn fleiri grasa en á sýningu Gretars, allt frá hinum gamalkunnu málverkum meistaranna til hljóðlistaverka til spilastokks útgefnum af Landsvirkjun. Yfirskrift sýningarinnar vísar til orða Laxness úr riti hans um Kjarval sem kom út árið 1950 en hugmyndin að sýningunni og umsjón með henni er í höndum Einars Garibalda Eiríkssonar, listamanns og prófessors við Listaháskóla Íslands.

"Laxness byrjar þarna að greina örlítið hvernig sýn okkar á náttúruna breytist eftir að tól og tæki koma til sögunnar. Meðal annars talar hann um það hvernig Hekla, þessi gamli inngangur að víti, verður eiginlega að pönnuköku um leið og við fljúgum yfir hana," segir Einar en fyrir tveimur árum hélt hann fyrirlestur um þetta efni. Í kjölfarið stakk hann upp á þessu viðfangi sem efni í sýningu sem nú lítur dagsins ljós. "Myndirnar á sýningunni verða bara merktar með númerum. Svo hef ég skrifað bækling sem sýningargestir fá í hendur þar sem þeir eru leiddir eftir þessum númerum um sýninguna og hún útskýrð í leiðinni."

Langaði að fjalla um landslagssýn
Aðspurður af hverju Hekla hafi orðið fyrir valinu svarar Einar að hún hafi þann kost að margir hafi fengist við hana í myndverkum. "Mig langaði til að fjalla um landslagssýn og varð að takmarka mig að einhverju leyti. Með því að stýfa leitina innan myndheimsins verður miklu skýrara hvers konar þróun hefur átt sér stað. Hekla hefur náttúrulega verið myndgerð frá fyrstu tíð, eins og maður sér á landakortunum. Það hefði verið mjög auðvelt að safna saman öllum "fallegustu" Heklumyndunum og setja saman inn á þessa sýningu en ég held að það væri fullkomlega óáhugavert að þær stæðu þarna í þöglu samþykki um að þetta séu bestu Heklumyndirnar. Ég vildi sjá hvað myndi gerast með því að setja saman ólíka hluti, bæði úr neyslusamfélaginu og frá frumherjunum, gömlu kortin, Ómar og allt þetta.

Ég vissi auðvitað ekkert hvað yrði úr og þetta hefur tekið nokkrum breytingum á leiðinni. Sýningin fjallar líka um þann hugmyndaheim sem myndlistarmaðurinn jafnt sem allir aðrir standa frammi fyrir þegar hann vill takast á við Heklu eða náttúruna almennt. Það eru jú ekki bara Kjarval og þeir sem eru hluti af honum, það er líka Ómar og símaskráin og jepparnir að skvetta upp úr drullupollunum. Þetta er allt hluti af þessari mynd og hefur áhrif á hvernig við upplifum og skynjum náttúruna."

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]