[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
[ sköpunarþátturinn ]
anna jóa /
morgunblaðið /
2007 >
Í eins konar samtali eins málara við annan, hefur Einar Garibaldi Eiríksson skipulagt sýningu á verkum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals á Kjarvalsstöðum undir yfirskriftinni "K-þátturinn", þar sem hann freistar þess að fá sýningargesti með í samræðuna og "líta á sýningarrými Kjarvalsstaða sem áhættusvæði óheftrar hugsunar, fremur en geymslustað ósnertanlegra meistaraverka".

Sýningin felur í sér athyglisverða tilraun safnsins til að fást við eigið samhengi og jafnframt að brjótast út úr því og nálgast safneignina, þ.e. safn Kjarvalsverka, á nýstárlegan hátt.
Áhersla sýningarinnar er á sköpunarþættinum - sjálfri forsendu safnsins (safns verkanna sem og Kjarvalsstaða sjálfra). Þarna getur að líta teikningar Kjarvals og málverk, þar á meðal mörg þekkt verk sem eru óinnrömmuð líkt og komin beint af trönunum, en líka snjáða pensla og tuskur, uppstækkaðar ljósmyndir af honum að störfum. Síðast en ekki síst ber á víð og dreif fyrir augu stuttar tilvitnanir í málarann sjálfan - þær mynda nokkurs konar leiðarvísa um sýniguna - en ítarlegri ummæli hans blasa við á stórum textaspjöldum á fimm súlum við inngang sýningarinnar. Auk þess talar Kjarval til okkar úr hátölurum.
Í uppstækkuðum tilvitnunum á súlunum ræðir Kjarval m.a. um viðtökur verka, málaraathöfnina (ekki síst reynsluna af því að mála úti í náttúrunni) og veltir fyrir sér skynjuninni og listrænum þáttum. Tilvitnanirnar eru á táknrænan hátt látnar mynda grunnstoðir, eða undirstöðu safnsins, líkt og til að minna sýningargesti á hvernig kveikju verkanna er að finna í skapandi hugsun og sýn málarans. Málaralist er semsé líka hugmyndalist. Þessi hluti sýningarinnar er til þess fallinn að vekja forvitni og opna fyrir hugrenningatengsl áður en gengið er inn í sýningarsalina. Það er kostur að þeir sem sitja í kaffistofunni í miðrými safnsins geta vel lesið textann, sem og sjóndaprir eða börn og því óhætt að segja að á sýningunni sé leitast við að höfða til breiðs hóps.
Sýningartextar eru mikilvægur hluti stórra safnasýninga. Í umræðu í safnaheiminum á síðustu áratugum hefur m.a. verið rætt um skapandi merkingarauka sem sýningartextar geta falið í sér og þá nánd sem slíkir textar geta búið til í opinberu rými safnsins. Í því samhengi má líta á uppstækkaðar tilvitnanir í listamanninn sem tilraun sýningarstjórans til að skapa tilfinninga fyrir nærveru Kjarvals. Sýningargestir eru hvattir til að setja sig í spor málarans með lestri hinna ljóðrænu texta sem í er fólgin huglæg tenging við viðfangsefni hans.
Þegar inn í sýningarsali "K-þáttarins" er komið, sést að framsetning á sýningartextum og verkum er býsna óhefðbundin. Á litlum spjöldum sem standa á gólfi upp við vegg, þar sem hangir syrpa mynda, eru orð á íslensku og ensku, til dæmis "11. Sálarástand málarans / The Painter's Psyche". Orðin eru fengin úr tölusettri efnisskrá fyrir sýningu sem Kjarval hélt fyrir um 80 árum. Ætlun sýningarstjórans virðist sú að láta þessi orð málarans sjálfs gefa tóninn fyrir tiltekna myndasyrpu, og virkja um leið ímyndunarafl sýningargesta. Engar aðrar upplýsingar fylgja verkunum, svo sem heiti þeirra, ártal, efnisnotkun og viðfangsefni (þessar upplýsingar má þó finna á lista sem hangir á veggnum fyrir utan sýningarsalina). Þess í stað eru verkin merkt með safnafræðilegum skrásetninganúmerum, svo sem "K-5128". Í sýningarskrá "K-þáttarins" beitir Einar Garibaldi textatengslum með því að setja valdar tilvitnanir í Kjarval í samhengi við umrædda töluliði gömlu efnisskrárinnar. Því má segja að það sé hinn skapandi þáttur tungumálsins (sem og hvetur til skapandi túlkunar) sem er í fyrirrúmi á þessari sýningu, fremur en skýringartextar af hefðbundnum, fræðilegum toga.
Staðsetning spjaldanna á gólfi sýningarsalarins, neðan sjónlínu verkanna, er í samræmi við "jarðbundna" afstöðu sýningarstjórans í tilraun til að sjá málarann frá sjónarhóli sem felur í sér afhelgun á hefðbundinni miðlun á verkum Kjarvals og viðteknum, jafnvel upphöfnum, hugmyndum um listamanninn eða "goðsögnina" Kjarval. Sýningargesturinn stendur líkt og jafnfætis þeim önnum kafna Kjarval á ýmsum æviskeiðum sem birtist á ljósmyndunum. Raunar er Kjarval bara kallaður "K" í yfirskrift sýningarinnar og vísar það til skráningarnúmera verkanna sem safngripa.
Það er ekki síst í myndasyrpunni "19. Ófullgerð mynd" sem áherslan á listaverkið sem safngrip er hvað sterkust. Þar hanga verkin þétt saman líkt og i geymslu: innrömmuð í rekkum og sjást aðeins frá hlið. Merkingar aftan á verkunum sjást hér; safnfræðilegar upplýsingar um eiganda, heiti og stærð, hvert verkið hefur ratað á stórsýningar úti í heimi - þessi verk eru ekki beinlínis til sýnis heldur "geymd" sem menningarverðmæti.
Sýningin snýst því öðrum þræði um safnahugtakið, um listaverkið sem hlut og um málverk Kjarvals sem safn - menningararf sem varðveittur er í "helgiskríni" safnsins. Hvað gerist þegar verkin eru tekin úr römmunum, þeim snúið við og hefðbundnar merkingar fjarlægðar - jafnvel þótt verkin séu inni í safnastofnuninni? Hvernig skynja nýjar kynslóðir menningararfleifðina? Einhverjum kann að þykja útlit sýningarinnar full "poppað" eða að "meistaranum" sé ekki sýnd tilhlýðileg virðing. Svo kann að virðast sem sýningarstjórinn reiði sig um of á orð og tungumál á kostnað slagkrafts myndmálsins en á hinn bóginn má ætla að hann sé að vekja athygli á vanmetnum þætti tungumálsins í æviverki Kjarvals. Hvað sem því líður, þá er hér um skemmtilega nýbreytni að ræða; brugðið er á tilraunakenndan leik, efnt til stefnumóts samtímans við fortíðina og menningararfinn. "K-þátturinn" minnir á að hver og einn getur átt persónulegt samtal við Kjarval og uppgötvað tjáningu hans á eigin forsendum, en að slík uppgötvun sé óhjákvæmilega einnig mótuð af íslenskri menningarvitund.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]