[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
eigin skrif | umfjöllun | sýningarstjórn | útgáfa | vinnustofa


 
[ sjálfsblekking ]
kjartan guðjónsson /
morgunblaðið /
2007 >
Trúboð kennt við konsept (hugmyndalist) hefur lagst yfir löndin eins og farsótt. Upphafið var í Bandaríkjunum fyrir áratugum og hljóp þaðan út um víðan völl. Nú skyldi öll hefð í myndlist slegin af og var því kirfilega fylgt eftir og allt utan konsepts dæmt frá lífi. Nú felst myndlistin helst í kjaftavaðli og drasli sem kastað er á gólf.

Myndlista- og handíðaskólinn var sleginn af eins og horgemlingur og nokkrir nemendur MHÍ sem hangið höfðu iðjulausir í nokkur ár ráðnir prófessorar. Hversu mikið og lengi er hægt að misbjóða þeirri nafnbót. Dýrmæt tæki, vefstólar og smíðaverkstæði o.fl. var keyrt á hauga. Þeir hlífðu nokkrum hægindastólum af kennarastofu og hafa líklega hugsað sér að þeir myndu duga þeim vel í djúphugsun.

Ráðnir voru prófessorar, próflausir, til skólans. En mér er spurn, hvað eiga þessir vesalings nemendur að gera eftir fjögurra ára setu í skóla sem þeir héldu með nokkrum rétti að væri kaffistofa og athvarf fyrir kaffisamkvæmi? Þeir eru flestir of gamlir til að endurhæfing komi að gagni.

Maður heitir Einar Garibaldi, prófessor að nafnbót. Hann tók að sér að skipuleggja og hengja upp sýningu á verkum Kjarvals. Garibaldi hefur trúlega haft spurnir af hversu launfyndinn Kjarval var og það eitt getur gefið til kynna hversu hæðinn Kjarval var í fyndni sinni. Sýningarstjórinn hengdi eina stóra mynd á vegginn þannig að bakhliðin sneri mót salnum. Þetta hefði málarinn Kjarval aldrei gert. Þetta átakanlega vindhögg á ekkert skylt við kímni Kjarvals og Garibaldi getur ekki að því gert að hann er bjöllusauður, þrátt fyrir nafnbótina.

Og svo er það aulaskapur þorra íslenskra myndlistarmanna. Allir meiriháttar sýningarsalir eru þeim lokaðir og þeir þora ekki að opna munninn af ótta við ónáð, sem þeir hafa reyndar uppskorið ásamt fyrirlitningu og eiga það kannski skilið. Frændur okkar Danir hafa komið á fót háværum mótmælum og tekið opinber listhús herfangi og sama mun upp á teningnum víðar. En þorri íslenskra listamanna er bljúgir aular sem halda að ef þeir eru bara nógu þægir fái þeir um síðir umbun síns erfiðis. Hvílík sjálfsblekking, hvílíkur aulaskapur.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]