![]() |
[ myndin af heiminum ] eiríkur guðmundsson / víðsjá / ríkisútvarpið / 2002 > |
[ eiríkur ] Við notum orð og tákn, kæru hlustendur, til að villast ekki út í veruleikanum, en okkur hættir líka til að heillast að því sem ekki er hægt að tákna og kannski erum við þrátt fyrir þörf okkar til að njörva heiminn niður, nefna hann og ná utan um með orðum, alltaf að leyta þess sem ekki verður fært í tákn og við vitum að það er raunar ansi margt, það sem við getum sagt á tilteknum tíma við tilteknar aðstæður er ef til vill aðeins brotabrot af því sem við þyrftum að geta sagt, eða okkur langar til að segja. Einu sinni stóð heimurinn fyrir framan mennina eins og opin bók, útfull af táknum sem biðu þess eins að vera ráðin og skilin til fulls. Síðar í sögunni virðist sem táknin og heimurinn fallist í faðma, enginn greinarmunur er gerður á tákninu og því sem það táknar. Á vorum dögum má hins vegar segja að við lifum að einhverju leyti í heimi táknanna sem sjálf lifa sjálfstæðu lífi og við getum dvalið í þessum heimi táknanna ævilangt hugsanlega án þess að velta því fyrir okkur hvað það er sem táknin merkja. Táknin ein og sér þau virðast nægja okkur, þau eru svo heillandi. Það er býsna langt síðan að menn gerðu sér grein fyrir því að leitin að hinni sönnu mynd af heiminum er dæmd til að mistakast og líklega kemur það aldrei til okkar aftur -tungumálið sem talað var í Eden. Myndin sem dregin er upp af veruleikanum, verður því ævinlega að einhverju leyti barn síns tíma og segir því eftilvill meira um þann sem býr myndina til en endilega veröldina sjálfa. Gullöld kortagerðarinnar, kæru hlustendur, var líklega tíminn þegar að táknin og heimurinn virtust vera eitt og menn velktust ekki í vafa þegar trúin á táknin var annarsvegar. Gósentími kortagerðarmannsins, þess sem breytir landi í tákn hlýtur að vera þegar hann stendur fyrir framan nafnlaust landið vopnaður táknum sem enginn dregur í efa og hann getur gert allt í senn; dregið línur landsins á blað og skírt þetta sama land, bæði í huganum og á kortinu sem hann býr til. Þó er það ekki endilega víst, kæru hlustendur, kannski er enn meira heillandi að mæta til leiks þegar kortið hefur verið fullgert og jafnvel gefið út af Landmælingum Ríkisins. Þá er hægt að rýna í táknin sem kortagerðamaðurinn hefur skilið eftir á kortinu og eftilvill verða þau meira heillandi en það sem þau eiga að tákna, hvort sem það eru Leirur, Vitar, Gígar, nú eða Á með brú. Þann 6. september síðastliðinn var opnuð í nýju Listasafni Reykjanesbæjar, Duus-húsi, athyglisverð sýning sem nefnist Blað 18 - Reykjanes, en þar sýnir myndlistarmaðurinn Einar Garibaldi myndir sem innblásnar eru af kortagerð. Já, Einar hefur tekið táknin sem notuð eru á korti Landmælinga Ríkisins, eða Landmælinga Íslands öllu heldur; táknin sem eiga að tákna ýmist leirur, vita, gíga nú eða brú yfir á. Hann hefur blásið þau út og hengt upp á vegg í hinu nýja Listasafni í Reykjanesbæ. Safni sem með þessari sýningu setur sjálft sig á enn annað kort, sem gæti þá með réttu kallast kort listarinnar á Íslandi. Ég hitti Einar Garibalda í dag, til að ræða við hann um kortagerð og hina sönnu mynd heimsins, en spurði hann fyrst um Blað 18 - Reykjanes? [ einar garibaldi ] Já, Blað 18 er hluti af kerfi Landmælinga Íslands, Atlaskerfinu svokallaða, en í því eru samtals 87 kort sem eiga að sýna okkur myndina af Íslandi í heild sinni. Og á Blaði 18 er semsagt að finna sjálfa Reykjanestánna og landsvæðið í kringum Rreykjanesvita. En svo óheppilega vill til að samkvæmt þessu kerfi reynist nær ekkert vera á kortinu og það var í rauninni sú staðreynd sem vakti áhuga minn. Nefnilega að svo óheppilega skyldi hittast á í þessu kerfi að á því væri eyða, sem táknaði hafsvæðið úti fyrir. Ég hafði reyndar verið að velta fyrir mér hvernig náttúran birtist okkur bæði í myndlist og í kortagerð, meðal annars á sýningu sem ég skipulagði fyrir Kjarvalsstaði í fyrra: Flogið yfir Heklu, þar sem ég reyndi að taka þessar vangaveltur saman. En segja má að upphafið að núverandi sýningu megi á einhvern hátt rekja til hennar, þó að það sé svo sem ekkert nýtt að myndlistin beini sjónum sínum að kortagerðinni. Þetta sjáum við í mörgum þekktum verkum frá 17. öld, m.a. hjá Vermeer og El Greco, þar sem kort leika mikilvægt hlutverk í verkum þeirra. Þessir meistarar virðast einmitt vera velta álíka hlutum fyrir sér, þ.e. með hvaða hætti veruleikinn birtist okkur og hver sé munurinn á mismunandi túlkun þessa sama veruleika, þá annarsvegar í málverki og hinsvegar í kortagerð. Kortagerð hefur alltaf vakið áhuga minn, en það er þó ekki fyrr en upp á síðkastið að ég hef verið að velta henni eitthvað sérstaklega fyrir mér. Upphafsins má kannski leita til þess að ég var að vinna að verkefni þar sem ég vildi taka á einhvern hátt mið af náttúru Reykjanessins. Kveikjuna að þessari hugmynd má því rekja til þessarar vinnu, en þar sem ég þekki ekki mikið til á Reykjanesinu afréð ég að fara út í búð og kaupa mér þetta ágæta kort -Blað 18- og komst að því við heimkomuna að næstum ekkert var að finna á þessu tiltekna korti. Og þessi "uppgötvun" leiddi til þess að ég fór að velta fyrir mér táknunum eða táknmyndunum sem finna má á jaðri kortsins og notaðar eru til að tákna þá náttúru og merkisstaði sem ákveðið hefur verið að sýna okkur á kortinu. Ég fór að velta fyrir mér hlutverki og merkingu þeirra og ákvað vegna þessarar sýningar að taka þessi tákn út; einangra þau og blása upp til að sjá hvort að það væri ekki heppileg aðferð til að komast að því hversu mikil blekkingamynd kortið er í raun og veru. Það er að segja, að varpa ljósi á að baki gerðar kortsins liggi ævinlega og óhjákvæmilega ákveðið val, þar sem kortagerðarmennirnir og þeir sem búa yfir því valdi að gera slík kort hafa þurft að taka ákvarðanir um. Þeirra val og það vald sem því fylgir að velja fyrir okkur hvað það er sem er mikilvægt og hvað sé ekki mikilvægt skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli, þar sem okkur hættir til að trúa því að þær myndir sem settar eru niður á blað fyrir okkur með þessum hætti séu hin eina sanna mynd heimsins. En ég held að raunin sé sú að svo er ekki. Til að mynda bendir Borges á það í frægri smásögu eftir sig um nákvæmni vísinda, þar sem hann talar um ákveðna þjóð eða þjóðflokk sem gerir svo nákvæmt kort af landi sínu, að kortið er í stærðarhlutföllunum einn á móti einum. Með öðrum orðum svo nákvæmt að hvert smæsta smátriði er tiltekið á þessu korti, þar sem kortið nær út yfir allt ríkið eins og það leggur sig, en veldur því að sjálfsögðu að ríkið og náttúra þess sést í rauninn ekki fyrir kortinu. Það er að segja að kortið kemur í veg fyrir raunveruleg tengsl okkar við náttúruna. En það er auðvitað eitt af því sem kortagerðin hefur leitt af sér og kannski öll vísindaleg aðferð í nútímanum, hún kemur að einhverju leiti í veg fyrir það að við sjáum hlutina eins og þeir eru, þó svo að við teljum okkur trú um að svo sé. [ eiríkur ] Einar Garibaldi er fæddur árið 1964, hann stundaði nám í myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1980 til 1985 og síðan í Accademia di Belle Arti di Brera í Mílanó á Ítaíu á árunum 1986 til 1991. Guðbergur Bergsson rithöfundur fylgir sýningu Einars í Duus-húsi í Reykjanesbæ úr hlaði með formála þar sem hann segir m.a. að í verkum Einars séu aðeins táknin sýnileg á meðan fyrirmyndin er á öðrum stað. Já, Einar Garibaldi er í vissum skilningi að búa til tákn úr táknum á sýningunni í Reykjanesbæ, hann segist ekki hafa áhuga á náttúrunni sjálfri sem fyrirmynd, heldur því tungumáli sem við notum hverju sinni, til þess að túlka þessa ákveðnu náttúru. [ einar garibaldi ] Og það sem ég er að reyna að gera í þessum nýja sal í Duus-húsi í Reykjanesbæ, er ákkúrat þetta; að reyna að draga fram og gera sýnilegt það tungumál sem við notum til að túlka þá náttúru sem við sjáum út um glugga sýningarsalarins. Og þá í rauninni þá náttúru sem ég hef kosið að snúa baki við, til að beina sjónum mínum að þessu tungumáli, sem er mín fyrirmynd. [ eiríkur ] Og þú hefur, eins og Guðbergur Bergsson talar um í formála fyrir sýningunni að þú hefur ekki áhuga á að ganga rakleitt að fjöllunum með pensil í hendinni og draga upp fyrir okkur mynd af Reykjanesi, heldur viltu fara einhverja leið sem er hugsanlega óbein? [ einar garibaldi ] Já, því hún er kannski sú eina sem ég sé að er fær í stöðunni. Það er ekki tilviljun að ég gref upp kort sem gerð voru af kortagerðarmönnum í kringum 1930, því þannig reyni ég að nálgast þá náttúru sem blasti við kortagerðarmönnum þess tíma; það er að segja þeirri náttúru sem að var þá að mestu leyti óspjölluð af gjörðum þeirra stjórnmálamanna og framkvæmdaðila sem nú setja mark sitt á þessa náttúru. Þannig má kannski segja að sú náttúra sem við okkur blasir á kortinu, sé að einhverju leyti "náttúrulegri" en sú sem blasir við okkur í dag. |
|
< | > | ||