[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ reykjavík / vegvísir ]
jón proppé /
sýningarskrá /
glerhúsið /
2023 >
Á sýningu Einars Garibalda í Nýlistasafninu árið 1998 hengdi hann upp á veggi skilti með slaufunni sem á að tákna „áhugaverðan stað“. Þessi „fundnu málverk“ eða skilti hafði Einar sótt á suma af fallegustu útsýnisstöðum landsins, staði þar sem listmálarar hafa gjarnan sett upp trönur sínar og þangað sem skiltin benda okkur enn á að staldra við og gefa fegurðinni gaum.

Skiltin voru merkt þeim stöðum þar sem þau höfðu verið og urðu því í einhverjum skilningi jafngild stöðunum sjálfum. Síðan hefur Einar haldið fleiri sýningar þar sem hann veltir fyrir sér kortleggingu okkar og skilning á umhverfinu. Hvað þýðir það að rata um? Hvað ræður því að sumir staðir fá skilti en aðrir ekki?

Kortið er ekki það sama og landslagið en því er ætlað að auðvelda okkur ferðir um landið, að leiðbeina okkur aftur heim. Tilgangur þeirra er að leiðbeina, benda og stýra okkur. Kort eru þó, óhjákvæmilega, almenns eðlis, eins konar lauslegt ágrip af umhverfinu. Þetta gera ferðamannakortin sem beina fólki t.d. á – Hallgrímskirkju, Sólfarið, Alþingishúsið eða Laugardalshöll.

Ferðamannakortið vísar á þessi kennileiti með því að draga upp litlar teikningar af þeim svo það verður að eins konar bingó-spjaldi þar sem ferðamaðurinn getur krossað við það sem hann er búinn að sjá og áttað sig á hvað er eftir. Kortið skilgreinir þannig það markverðasta í borginni, það sem allir verða að sjá til að geta sagst hafa komið þangað. Við verðum að skoða þetta en ekki hitt og þannig er kortið á vissan hátt orðið umhverfinu æðra. Þessum teikningum hefur Einar áður gefið gaum í málverkum sínum.

Hvar sem við búum þá höfum við okkar eigið kort af umhverfinu í huganum. Þar eru kennileitin þó líklega frekar verslunarkjarninn, leiðinlegu umferðarljósin eða húsið þar sem amma bjó. Við höfum sjaldnast tíma til að pæla mikið í því sem fyrir augu ber; við erum á hraðferð og höfum annað að gera. Fyrir okkur verður borgin eins og hreyfð mynd tekin án umhugsunar út um blauta og óhreina bílrúðu.

Á þessari sýningu og í bókverkinu sem fylgir er Einar einmitt að velta fyrir sér þessu undarlega samhengi kortlagningar og hversdagslegrar upplifunar. Heima hjá okkur erum við of upptekin til að taka eftir einhverjum kennileitum en þegar við komum á framandi slóðir eltum við þau uppi og skoðum vandlega. Kannski er vegvísir Einars að benda okkur á að við ættum einmitt að skoða þessi kennileiti með okkar eigin augum.
 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]