![]() |
[ þristur getur allt ] ragna sigurðardóttir / morgunblaðið / 2005 > |
Nú sýna átta listamenn saman verk sín í Nýlistasafninu, það eru þau Anna Jóelsdóttir, Ásdís Spanó, Bjarni Sigurbjörnsson, Einar Garibaldi Eiríksson, Inga Þórey Jóhannsdóttir, JBK Ransu, Sigtryggur Bjarni Baldvinsson og Sigurður Árni Sigurðsson. Þau eiga myndmiðill sinn sameiginlegan, málverkið, en nálgast það á mismunandi hátt rétt eins og vísindamenn sem rannsaka margvíslegar hliðar ákveðins fyrirbæris. JBK Ransu og Sigtryggur Bjarni Sigurðsson skoða sjónræna og sjónblekkingar-möguleika þess og taka þróun listasögunnar með í reikningsjöfnur sínar, útkoman er í báðum tilfellum spennandi. Verk Sigtryggs tengjast náttúru og tækni um leið, impressionisma og úrvinnslu ljósmynda í tölvu, poplist og op-list. Hann dansar á línu abstrakts og fígúratífs en málverk JBK Ransu eru hrein óhlutbundin list. Hann sýnir hér afar jákvæða þróun á þeirri braut sem hann hefur fetað síðustu ár. Verkið sem hann sýnir er ríkara af smáatriðum en fyrri verk, aukið nostur við málun nær að gæða myndflötinn spennandi lífi auk þess sem vinnuaðferð hans vísar meðvitað til stefnu og strauma í listum 20. aldar. Það er léttleiki yfir þessu málverki og má jafnvel greina í því ákveðinn húmor, listamaðurinn virðist hafa fundið nýjan þrótt og jafnvægi í list sinni. Bjarni Sigurbjörnsson sýnir einnig óhlutbundið verk áþekkt þeim sem hann sýnir í Hafnarborg nú um stundir. En í stað vandaðra og úthugsaðra pensildrátta Sigtryggs og Ransu er það kraftur tilviljunar og efnahvörf lita og olíu sem skapa lífræna mynd Bjarna, mynd sem hefur hvorki bakgrunn né forgrunn heldur svífur frjáls í rýminu. Inga Þórey Jóhannsdóttir hefur undanfarin ár fengist við athyglisverðar rannsóknir á möguleikum abstraktmálverksins og velt fyrir sér möguleikum þess í rýminu. Hér sýnir hún áhugavert arkitektónískt verk, þrívíðan manngengan skúlptúr þar sem hún leikur sér með rýmis- og jafnvægistilfinningu áhorfandans. Inga Þórey er virk á myndlistarsviðinu í fleiri en einum skilningi þar sem hún er einnig einn aðstandenda nýja sýningarýmisins í Reykjanesbæ, Gallerís Suðsuðvestur, lofsvert framtak. Áhugavert verður að sjá þróun verka Ingu á næstunni, ekki margir íslenskir listamenn vinna verk í tengslum við arkitektúr og arkitektóníska hugsun. Málverk Önnu Jóelsdóttur eru ekki síður vel heppnuð en önnur verk á þessari ótrúlega jafngóðu sýningu. Hún sýnir 25 stangir, hver og ein er málverk og skemmtilegt að ímynda sér að með því að snúa þeim skapist önnur mynd, líkt og þrívítt kubbapúsl eða auglýsingaskilti sem snúast og hver hlið birtir nýja auglýsingu. Einnig má láta sér detta í hug alls kyns stangir sem bera skilaboð, fána, stríðsmerki o.fl. eða míkadóstangir sem gætu líka fallið í allar áttir. Verk sem býr yfir miklum möguleikum. Þrír listamenn eru síðan á mörkum hins fígúratíva. Einar Garibaldi sýnir þrjú málverk þar sem saman koma hugsanleg landakort, hliðarmynd líkt og portrett, skrásetning yfirborðs eftir númerum. Hann vinnur markvist með hina misvísandi túlkunarmöguleika þar sem enginn þeirra útilokar annan og gerir það verkin einkar áhugaverð. Sigurður Árni Sigurðsson er hér á dálítið dramatískari nótum en oft áður, þótt ekki sé um frávik frá fyrri rannsóknum hans að ræða. Hann vekur stemningu fyrir hinu hverfula, liðnum tíma, skugga einhvers sem var, málverk hans minnir á mynd Gerhards Richter frá áttunda áratugnum þegar hann vann málverk sem líktust svart-hvítum ljósmyndum, úr fókus og á hreyfingu. Loks er það nýliðinn í hópnum, tiltölulega nýútskrifuð, Ásdís Spanó, sem vakti athygli á útskriftarsýningu LHÍ 2002 fyrir óvenjulega þroskuð og ákveðin málverk. Hún hefur m.a. sýnt í Orkuveitu Reykjavíkur og áþekk verk sýnir hún hér, málverk á mörkum landlags og efnahvarfa, óhlutbundin en með sterkum tengslum við hið hlutbundna um leið, lofandi málari. Það kemur varla á óvart þegar svo hæfileikaríkt listafólk kemur saman að útkoman er heildstæð og um leið mjög blæbrigðarík sýning sem sýnir einkar vel hversu margt málverkið hefur jafnan upp á að bjóða. Hér kemur líka vel fram fallegur salur nýs húsnæðis Nýlistasafnsins. ^ |