[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


[ síðasta landslagsmyndin ]
málþing /
hver á kjarval? /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
2006 >
Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Þetta á jafnt við um náttúruna sem í listinni. Það er ekki fyrr en við glötum því sem höfum að við uppgötvum mikilvægi þess. Spurningin er hvort að þetta eigi einnig við um Borgarfjörð Eystri? Og við skulum ímynda okkur eitt augnablik að við séum í alvörunni komin þangað. Og hvenær kom það til að okkur datt í hug að kalla hann fallegan? Getur verið að við höfum uppgötvað fegurð hans, vegna þess að hann er horfinn okkur sjónum?

Það er nefnilega ekki náttúran sjálf sem vekur máls á fegurð sinni og það tók vesturlandabúa meira en tvöþúsund ár að uppgötva það sem við köllum landslag, rammaða mynd sem þannig er aðgreind frá náttúrunni. Reyndar er það ekki fyrr en á 16. öld að við heyrum í fyrsta skipti orðið landslag, enda er það ekki fyrr en við nefnum hlutinn eða gerum af honum mynd, að fyrirbæri eins og fjöll, dalir, lækir breytast í landslag.

Á stað eins og þessum, þar sem náttúran er allstaðar, kemur maður ekki auga á hana fyrr en maður kynnist menningunni. Flytur til borgarinnar, á staðinn þar sem maður glatar náttúru sinni. Fram að því er maður einfaldlega hluti hennar. Þannig er landslagið afurð menningar og íslenskt landslag væri óhugsandi án orða skáldanna eða myndverka málaranna. Segja má að þau séu sitthvor hliðin á sama pengingum. Án landslagsmynda þeirra væri Borgarfjörðurinn aðeins staðarnafn, Dyrfjöll aðeins hnit og Álfaborgin ekki annað, en púnktur á blaði.

Það að kalla náttúruna fagra eða háleita er seinni tíma uppfinning evrópskra menntamanna er leituðu út í sveitir þar sem þeir stóðu frammi fyrir framandi veruleika sem var ekki lengur þeirra eigin. Þessi sami framandleiki lifir enn góðu lífi þegar við tökum á okkur krók til að njóta fagurs útsýnis eða stöðvum við skiltið áhugaverður staður. Á slíku ferðalagi erum við í raun að feta í fótspor þeirra upphafsmanna er breyttu náttúrunni í mynd.

Hvort heldur við lýtum til Niðurlanda eða Feneyja um miðbik 16. aldar, Danmerkur eða Noregs í lok þeirrar 19. eða Íslands og Færeyja í upphafi þeirrar 20. þá sjáum við hversu stórt hlutverk myndir af landinu leika í sjálfskilningi, sjálfsmynd og sjálfstæðisbaráttu þessara þjóða. Fram að þessum tíma hafði hlutverk náttúrunnar í myndlist verið að standa í bakgrunninum, sem leiksvið goðsagnalegra, trúarlegra eða sögulegra atburða. Náttúran sjálf var of nálæg, of mikill þáttur í hinu daglega lífi til að eftir henni væri tekið sem sjálfstæðri fyrirmynd.

Þegar menn hinsvegar hófu að beina augum sínum að náttúrunni, uppgötvaðist að mynd hennar bjó yfir afar sterku myndmáli sem mögulegt var að nota í ólíkum tilgangi. Þannig er til dæmis enginn grundvallarmunur á Lorenzetti og Kjarval ef út í það er farið; á milli táknmyndarinnar um hina "Góðu og slæmu stjórn borgarinnar" og "Þingvallamynda" meistarans liggur leyndur þráður er hefur með stjórnmál að gera. Báðar eru þær táknmyndir vona, óska og fyrirheita, fremur en að vera uppteknar af sjónarspili og fegurð sveitanna í kringum Siena eða Þingvelli.

Jafnvel Kjarval kynntist ekki landslaginu fyrr en að hann fór að heiman. Það sem kveikti í honum "þetta undur sem fékk úngan svein á afskekktu landshorni til að fara búa til málverk", var ekki annað en litríkar myndir utan á niðursuðuvarningi. Og landslaginu kynntist hann ekki fyrr en í útlöndum, í Fontainebleau skógi, þar sem íslensk nútímalist varð til.

Þannig virðast hugtökin um náttúru og list ekki lifa án stuðnings hvort við annað. Fyrstu landslagsmyndirnar af Íslandi voru eftir útlendinga og frumkvöðlarnir okkar beyttu þekktum erlendum stílbrögðum við að opna augu okkar fyrir íslenskri náttúru. Það var fyrst og fremst myndlist þeirra er skóp íslenskt landslag, en fram að þeim tíma hafði það ekki verið til. Nálgun þeirra við náttúru okkar sá síðan til þess að hér mótaðist ákveðin tegund af list, en þessi list hefur líka séð til þess að hér hefur mótast ákveðin tegund náttúru.

Stóra spurningin er hvað verði um þessa náttúru ef listin hættir að vera til og þá einnig hvað verði um listina þegar náttúran okkar hættir að vera til? Því nú eiga bæði náttúran og listin undir högg að sækja; bæði hálendið og regnskógarnir, ríkisútvarpið jafnt sem málverkið. Spurningin er hvort þetta haldist í hendur, hvort að brotthvarf hálendisins standi í sambandi við dauða málverksins, eða hvort Gufan hverfi um leið og Amazon-skógurinn?

Eðlilega veldur þetta ástand okkur vissum áhyggjum. Og umræðan hefur sem betur fer vakið okkur til vitundar um nauðsyn þess að ræða hið sérsaka samband listar og náttúru fyrir menningu okkar. En þar sem náttúran sem við sjáum hérna fyrir utan gluggann er ekki önnur en náttúran eins og hún leit út í augum listar gærdagsins, er eðlilegt að við spyrjum hver sé höfundur þessarar myndar. Er það Kjarval sem er höfundur hennar, eða eru það kannski einfaldlega við sem stöndum frammi fyrir þeirri mynd sem við eigum skilið sem höfundar hennar?

Það er þó síður en svo að tengsl okkar við náttúruna hafi rofnað, en þau hafa breyst og mótast æ meir af sölumennsku og gróðahyggju. Landslagsmynd okkar fer algerlega eftir því hver hefur pólitíska valdið og peningavitið. Virkjunarframkvæmdir og túrismi eru að móta nýtt landslag á Íslandi. Nú eru það græðgin og letin sem mála hina nýju landslagsmynd. Við búum í heimi þar sem allt er falt og margir eru tilbúnir til að þjónusta okkur í endalausri leit okkar að landslagi. Ferðir eru skipulagðar, þjóðgarðar eru opnaðir, staðir færðir á minjaskrá. Og um þetta nýja landslag vísa okkur lífsstílssblöð, auglýsingar og leiðangursrit.

Náttúran hefur verið skipulögð fyrir okkur og við neytum hennar fremur en njótum. Náttúran birtist okkur í gegnum bílrúðuna, í skipulagðri göngu eða jeppaferð þar sem heimspekingar okkar fara jafnvel í pakkaferðir til að kynnast sínum innra manni í handanveruleika hinnar fullkomnu blekkingarmyndar. Við lifum ekki lengur í náttúrinni heldur aðeins í myndinni af henni.

Við lifum í mótsagnakenndum heimi er virðist éta sig innanfrá. Eins og á listasafni brunum við um þjóðvegina, frá einni áhugaverðri myndinni til annarar. Og þannig upplifum við náttúruna, lokaða á safni líkt og frumherjana í íslenskri landslagslist. Upplifun okkar einskorðast nú við rammann sem heldur utan um myndina. Gakktu ekki á grasinu, snertu ekki munina, takk fyrir komuna!

Og þannig er einnig um listasöguna sem er allt of gjörn á að setja listamenn á stall, einangra þá sem hetjur handan þess sem raunverulega skiptir máli í verkum þeirra. Og þannig er einnig farið um Kjarval, þetta nátttröll íslenskrar myndlistar. Því listasaga okkar byggir um of á ævisaganaritun og staðháttalýsingum, þar sem ofureinföldun og barnsleg trú á sjálfsprottin framgang og stílræna framvindu nær hámarki í hinu alíslenska landslagsmálverki. Við verðum að rífa íslenska listasögu út úr því einstigi að kljást við innantóma sannfræði, fá hana til að hætta að elta leigubílstjóra út í móa, til að komast að því á hvaða þúfu Kjarval hafi staðið á þegar hann málaði Fjallamjólkina.

Menningarleg sjálfsvitund okkar hefur mótast af samneyti okkar við verk Kjarvals. Bæði skynjun okkar og skilningur á verðmætum náttúrunnar tekur umskiptum í samtali okkar við verk hans. Þau hafa mótað skynjun okkar með afgerandi hætti, þau eru mikilvæg -allt of mikilvæg- til að við getum leyft okkur að láta þau lokast inni í "einum" eða "opinberum" sannleika eða lýsingu á gildi þeirra.

Þannig verðum við að byrja á því að afhelga goðsögnina um Kjarval. Ekki aðeins sem hinn eina sanna íslenska listamann, heldur einnig þá er útilokar hann frá merkingarbærri orðræðu sem sérlundað náttúrubarn og ólíkindatól er þurfi ekki að taka allt of alvarlega. Því að það er ekki fyrr en við förum að lýta á ævi hans og verk sem fullkomlega raunveruleg, að augu okkar opnast fyrir þeirri mikilvægu þekkingu er verk hans búa yfir og koma á framfæri.

Sú þekking sem Kjarval hefur að færa okkur er ákaflega mikilvæg. Til að nema hana verðum við að venja okkur á að stöðva ekki lesturinn við yfirborð verka hans. Því líkt og í ljóði verðum að kunna lesa á milli línanna. Líkt og á korti verðum við að fylla upp í eyðurnar, því annars mótum við ekki þá lifandi merkingu er verk hans krefjast af okkur.

Í leit okkar af landslagi verðum við að hafa í huga að Kjarval var ekki kortagerðamaður í hefðbundnum skilningi. Verk hans stefna ekki einungis að því að lýsa ákveðnum stöðum, á sannverðugan -eða raunsannan hátt, líkt og að hann væri aðeins upptekinn af því að sýna okkur "hvar" eitthvað sé að finna.

Kortlagning hans byggist á snertingu við sögu, tilveru, tíma og andrúm Borgarfjarðar og íbúa hans. Kjarval kortleggur Borgarfjörðinn með hreyfingu sinni á milli þúfnanna, með því að anda að sér loftinu og hlusta á steinana. Hann gleypir í sig það tómarými sem ekki verður komið fyrir annarsstaðar en í málverki, hann gerir málverk sem er kort sem er málverk.

Því landslangsmynd er meira en einfalt útsýni til ákveðins staðar af eineigðum hól. Í landslagsmyndinni komumst við á svæði merkingarbærra fyrirbrygða, er kemur sjónarhólnum aðeins við að litlu leyti. Landslagsmyndin mætir okkur í samtali, í heildarmynd er tengist bakgrunni, þekkingu og minningum, jafnt þess sem "gerði" og þess sem "horfir" á myndina.

Kortlagning Kjarvals beinist ekki að því að hjálpa okkur að finna ákveðna staði, heldur er hún okkur vísbending um hvernig við getum skynjað þennan fjörð með okkar eigin hætti. Verk hans varpa til okkar hugrenningum, tilfinningu og hugsun, er beinist ekki eingöngu að tjáningu hinnar hreinu sjónupplifunnar. Hann býður okkur til ferðalags sem gerir kröfur til okkar, til þess að við ferðumst um í náttúrunni en ekki í landslag.

Þannig eru Dyrfjöll ekki bara fyrirmynd eða einstakt útsýnið upp hlíðina. Kjarval stundar kortlagningu þess sambands er líkaminn myndar við umhverfi sitt. Líkami hans er ekki njörvaður við ákveðna þúfu, heldur tilheyrir hann í senn; rými, sögu og menningu staðarins. Slík kortagerð birtir okkur hvernig það er að tilheyra ákveðnu svæði, lýsir því hvernig það er að ganga á yfirborði jarðar, hvernig tilfinning það er að vera hluti af náttúru. Verk hans búa þannig yfir mikilvægum skilaboðum, þekkingu og heimspeki sem við eigum - og verðum - að hlusta eftir. Síðast en ekki síst, verðum við að meta þau að verðleikum, sem lifandi og merkt innlegg í líf okkar og hugsanir um tengsl okkar við umhverfið. Því verk hans vísa til þátttöku í lífinu, í þeim felst aldrei boð eða valdbeiting, heldur tala þau um nálgun sem er ævinlega leit, en ekki fullyrðing. Vísbending en ekki ábending um að horfa á heiminn með okkar eigin augum.

Áræðni, snerting, nálægð og innileiki eru einkenni verka hans. En hið málaða fjall þarf ekki endilega að vera staðarfjallið, því rýmið sem hann býður okkur til er aðeins áminning um að við erum af þessum heimi. Á þúfu Kjarvals uppgötvar maður ekki rétt snónarhorn á Dyrfjöllin, heldur skynjar maður þar stöðu sína sem manneskju í þessum heimi. Sannfræði kortlagninga hans felst ekki í því sem blasir við augum standandi á þufunni hans. Til að skilja þetta verðum við að leggjast á milli þúfna og hlusta á steinana.

Málverk hans mótast af þeirri ómælanlegu þekkingu er streymur í gegnum líkamann á hverri stundu, en kortagerð málverksins byggir einmitt á líkamlegri snertingu við náttúruna. En sú snerting er einmitt nálæg og innileg, um leið og hún er meðvituð um þær upplifanir sem við verðum að þekkja í sjálfum okkur ef við viljum telja okkur manneskjur.

Það er frumskylda okkar að vera vakandi fyrir slíkum upplifunum ef við viljum kynnast umhverfi okkar af einhverri alvöru. Við megum einnig vara okkur á því að telja slíkar upplifanir annarsflokks, því um er að ræða kenndir sem mikilvægt er að greina og meta að verðleikum. Viska Kjarvals kemur ekki að handan, hann er enginn álfur út úr hól. Þekking hans blasir við okkur og er okkur læs í verkum hans. Landslag hans tilheyrir ekki aðeins ákveðinni landfræðilegri legu eða staðsetningu, það er Kosmískt -í þeim skilningi að það tilheyrir tíma, rúmi og sögu. Þúfan, bæjarlækurinn og fjallshlíðin eru kannski á sínum stað, en hann umbreytir þessum fyrirbærum í hugum okkar, gerir myndir sem hafa djúpstæð áhrif á skynjun okkar og skilning. Við erum ekki söm eftir að hafa staðið frammi fyrir verkum hans, því þau opna fullkomlega nýjan veruhátt. Og hann opnar okkur þennan skilning með því að búa um okkur í rými málverksins.

Myndir hans eru vissulega kunnuglegar, þær eru í senn okkar og fyrir okkur, sem framlenging okkar heimsmyndar. Vissulega þarfnast slík heimsmynd einhverrar staðfestingar, en við nálgumst hana varla með því einu að staðsetja hana. Við verðum að opna okkur fyrir heimi verka hans, því þar er að finna mikilvægar vísbendingar til okkar. Verk hans er ekki af þúfunni, bæjarlæknum, fjallshlíðinni og broti af himninum. Þau lýsa ekki aðeins sjónarhorninu frá ákveðnum stöðum heldur eru þau himininn allur. Við fljúgum um óravíddir málverksins, erum stödd allsstaðar og hvergi, í fullkominni samsvörun þúfu og mennsku. Í gegnum skynjun okkar tilheyrum við þúfu myndarinnar, tengjumst henni afar brothættum böndum, sem hluta okkar merkustu sögu.

Gleymum þó ekki að Borgarfjörðurinn er ekki einn, heldur fl eiri, hvert og eitt okkar tengist honum með mismunandi hætti. Fyrir mér er hann ekki til, en ég veit að hann er raunverulegur í augum sumra hérna inni. Og þannig minnir hann okkur á hversu mikilvægu hlutverki hann gegnir í mótun menningar okkar. Hann hefur hjálpað hverju og einu okkar að staðsetja sig í þessum heimi, þar sem hvert og eitt okkar býr yfir sinni eigin mynd af honum.

En hver er hann annars þessi Borgarfjörður? Er hann til í raun og veru? Birtist hann okkur ekki bara sem mynd, getum við þekkt hann öðruvísi en mynd, heimsótt hann öðruvísi en mynd? Því að það er þannig sem hann birtist okkur og það er þannig sem við heimsækjum hann. Við erum hætt að sjá Borgarfjörðinn fyrir myndinni sem við höfum gert af honum í huganum. Við sækjum hann heim án þess að leggja nokkuð á okkur til að skilja hann. Og þannig á hann eftir að vera okkur ókunnugur að eilífu.

Þar til í gær var það þess virði að heimsækja Borgarfjörð. Hann var raunverulegur staður, fullur af óvæntum upplifunum, en ekki lengur! Nú er hann ekki annað en dauf minning í huga okkar. Horfinn á bakvið trönur Kjarvals og fjöldaframleidda álfasteina. Nei, þetta er glataður fjörður. Týndur og tröllum gefinn, því gleymum ekki að mannanna verk í náttúrunni eru líka landslagsmyndir. Það er skollið á myrkur í firðinum. Hér býr ekki lengur nein merking, skuggi stórframkvæmda og hugsunarleysis er hér allt að kaffæra. Staðurinn hefur glatað öllu sem hann átti, hann hefur slitnað frá rótum sínum, sögu og tilveru. Heimsþorpið hefur tekið yfir.

Við sem komum hingað í leit að landslagi gætum allt eins verið hvergi; þrýst á hnapp, pantað álfastein eða eftirmynd þess Borgarfjarðar sem eitt sinn var. Eftirmynd sem raunveruleikinn hérna úti er löngu hættur að líkjast. Borgarfjörður er þó ekki horfinn til einskins, brotthvarf hans mótar nýjar myndir er blandast saman við þær sem fyrir eru. Vonandi varðar drukknun hanskaflaskipti í íslenskri listasögu, því hvort sem við förum á stað 1. 2. 3. eða 4. á gönguleiðakortinu um Kjarvalsslóðir, er ekkert eftir nema minningin. Fölar eftirmyndir í geymslubanka listasögunnar og ferðamannabæklingsins. Mynd af mynd. Þú ert hér (Kjarval var hér), taktu mynd, CLIK!

Það má vera að í upphafi 20. aldar hafi það verið nauðsynlegt að mála mynd af þessum glataða firði. En ég efast stórlega um að svo sé lengur þrátt fyrir að okkur ferðalanga í upphafi 21. aldar þyki sjálfsagt að taka mynd af honum. En hvort erum við að taka mynd af firðinum eða hinum mörgu eftirmyndum hans? Borgarfjörður er hin fullkomna staðleysa, afkimi ímyndar er þekkir ekki sjálfan sig nema í uppdiktuðum ferðamannabæklingi, staður sem gerir ekki annað en líkja eftir eftirmynd sinni.

Þessi mynd getur vissulega valdið hjá okkur óhug, óvissu, óþægindum og jafnvel reiði. Það er eðlilegt þar sem hún stendur okkur nærri, er allt sem við vitum, er öll okkar gamla heimsmynd. Þetta er að mörgu leyti skelfileg tilhugsun og vonandi ekki annað en síðasta landslagsmyndin. En sé hún það, er hún okkur líka lifandi áminning um að gleyma okkur ekki yfir fölnuðum eftirmyndum hans. Því hættan er sú, að ef við stöndum ekki á verði um hin raunverulegu verðmæti í lífi okkar, er ekki ólíklegt að svona muni fara fyrir firðinum ykkar.
Við verðum að vara okkur á að læsa hvorki Kjarval né fjörðinn í ákveðna eða staðlaða merkingu, hvorugt á heima á safni, hvorugt á það skilið að verða rykföllnum geymslubanka minninganna að bráð.

Höldum vöku okkar og látum lifandi samtal okkar við Kjarval og Borgarfjörðinn kveikja þá til lífsins. Því hver staður býr yfir sögu sem er einstök og í gegnum hana verður staðurinn þess virði að hans sé minnst. Á Borgarfirði er Kjarval mikilvægt brot þeirrar myndar, en vörumst að gera hann það stóran að við sjáum ekki aðra hluta þessarar myndar. Við verðum að láta afdrif þeirra skipta okkur máli, því einungis þannig mótum við verðuga mynd fyrir komandi kynslóðir.

Hér erum við saman komin í leit að landslagi -stöndum og gónum, í þessu krummaskuði skáldlegra líkinga. Og í villu okkar leitum við að ákveðnum útsýnisstað, ákveðnu landslagi, sem þýðir í raun og veru að viðurkenna að heimur okkar er horfinn. Við leitum í daufri von um að þúfa Kjarvals geti fært okkur nærri þessum glataða heimi okkar. En gönguferð á Kjarvalsslóðir er ekki annað en flótti frá raunveruleika verka hans. Leit okkar er á villigötum um leið og við hættum að horfa á verkin hans, því eftirmyndir okkar af þeim fjarlægja okkur ekki aðeins frá skilningi okkar á Kjarval, heldur einnig á sjálfum okkur og firðinum hans.

Á stund sem slíkri er ekki galið slökkva á myndavélunum okkar, leggjast á milli þúfna og hefja samtal við steinana. Þarna úti er ekki annað að finna en lélegar eftirmyndir á verkum Kjarvals. Og þess vegna vona ég að það sé ekki til of mikils mælst -nú á 120 ára ártíð meistarans- að við tökum okkur til og bönnum landslagsmyndina næstu 120 árin. Takk fyrir!

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]