[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ flogið yfir reykjanes ]
jón b.k. ransu /
morgunblaðið /
2003 >
"Hlutir sem við sjáum daglega eru okkur huldir
vegna þess hve kunnuglegir þeir eru. Veitum við hlutum frekar eftirtekt sem eru nýir og óvenjulegir," sagði austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein snemma á síðustu öld.

Þetta hefur belgíska málaranum Rene Magritte einnig verið ljóst þegar hann málaði verkið "Notkun orða" árið 1928, en það er af pípu ásamt undirritaðri setningu: "Ceci n'est pas une pipe" (Þetta er ekki pípa). Með verkinu tókst Magritte að gera kunnuglegan hlut eftirtektarverðan að nýju með því að benda okkur á þá staðreynd að málverkið er ekki pípa heldur mynd af pípu og þar á milli er óskilgreind fjarlægð. Slíkar hafa einnig verið vangaveltur hollenska listmálarans Johannes Vermeers þegar hann málaði "Táknmynd málaralistar" árið 1665. Setur Vermeer sig í spor áhorfanda sem horfir aftan á listamann mála portrettmynd. Ímyndaður áhorfandinn sér því samtímis fyrirmyndina og mótun eftirmyndarinnar. Breski listmálarinn Malcolm Morley tók svo fjarlægðina sem Vermeer gaf okkur á fyrirmyndina skrefinu lengra árið 1968, eða 303 árum síðar, þegar hann kópíeraði "Táknmynd málaralistar" eftir póstkorti og hafði jaðar myndflatarins hvítan eins og var á póstkortinu. Morley var þar með kominn í enn meiri fjarlægð frá upprunalegri fyrirmynd Vermeers með því að gera eftirmynd af eftirmynd af málverkinu án þess að túlka hana neitt frekar. Mikilvægur hluti í "Táknmynd málaralistar" er landakort sem hangir á veggnum fyrir aftan fyrirsætuna og þekur stóran hluta myndarinnar. Landakort sjást reyndar í fleiri málverkum eftir meistarann, en ein tekjulind Vermeers var að mála landakort eftir pöntunum. Er ekki ósennilegt að sú iðja hafi gert listamanninum ljóst hve nauðsynlegt það er að ná fjarlægð á hluti eða umhverfi og endurskoða frá nýju sjónarhorni.
Óhætt er að fullyrða að Einar Garibaldi Eiríksson sé að fást við samskonar vangaveltur í málaralist og áðurnefndir listamenn í sýningu sinni "Blað 18" sem nú stendur yfir í nýjum sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsi. Einar hefur tekið fyrir blað 18 í Atlaskortaröð Landmælinga, sem sýnir Reykjanesið efst í hægra horninu og svo ljósbláan hafflöt. Athygli Einars beinist þó ekki að sjálfu landslaginu eða útsýninu heldur að táknum á kortinu sem segja okkur hvers konar landslag eða útsýni þar sé að finna. Alls sýnir hann 55 málverk sem mynda eitt verk. Hver mynd er 40x80 cm að stærð og eru þær málaðar með olíu og lakki á stál. Á hverjum myndfleti er eitt tákn sem segir okkur hvers konar málverk við erum að horfa á, eða af hverju myndin er, ef við skoðum það út frá táknum Landmælinga. Standa táknin fyrir kletta, kjarr, mýrar, ár, bæi, prestssetur, vita, o.s.frv. Án þeirrar viðmiðunar eru flest verkin óhlutbundin.
Forvitnilegt þykir mér að sjá hvernig sýningar Einars á síðustu árum koma saman í sýningunni í Duushúsi. Árið 1997 sýndi hann í Nýlistasafninu veðurbarin skilti með tákninu "Áhugaverður staður", en táknið gefur okkur fyrirfram hugmynd um hvað sé áhugavert og hvað ekki. Árið 1999 hélt Einar eftirminnilega sýningu á Kjarvalsstöðum sem hann nefndi "Bláma". Voru það málverk byggð á sögu Jóhannesar Kjarvals og því stað-bundin Kjarvalsstöðum. Einar átti einnig hugmyndina að sýningunni "Flogið yfir Heklu" sem var á Kjarvalsstöðum sumarið 2001 og var hann þá sýningarstjóri. Málverk hans í Duushúsi sýna landslagstákn í líkingu við sýningu hans í Nýlistasafninu. Verkið er stað-bundið Reykjanesi eins og "Blámi" var á Kjarvalsstöðum og hann byggir sýninguna á yfirlitskorti og gæti hún því alveg eins heitið "Flogið yfir Reykjanes". Með málverkum sínum í Duushúsi er Einar, líkt og fyrirrennarar hans, Vermeer, Magritte og Morley, að gefa okkur nýja sýn á hluti sem eru okkur kunnuglegir, hvort sem það er sjálft landslagið, blað 18, táknin eða hefðbundið landslagsmálverk. Hefur verkið því opna túlkunarmöguleika þótt nálgun listamannsins sé skýr. Táknin eru furðufalleg á stálflötunum og njóta sín vel í nýjum sýningarsalnum. Er þetta glæsileg byrjun á sýningarhaldi hjá Listasafni Reykjanesbæjar.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]