![]() |
[ nýjabrum í nýhöfn og nýló ] ólafur engilbertsson / helgarpósturinn / 1988 > |
Hið sínýja málverk virðist einkum unnið á tvo vegu. Það einfaldast í sífellu, drættirnir verða einfaldari og tilgerðarlausir og tilgerðin hleypur í litina. Tilgerðarlegur einfaldleikinn skýrir myndina af tilurð verkanna. Annars vegar er um að ræða skissu- og formleiðina. Þar skissar fólk niður vitranir sínar á ljóshraða og stækkar þær síðan upp á vélrænan hátt án þess að bæta neinu við hráa skissuna nema snöggsoðnu og sjálflýsandi olíulagi. Hins vegar er fíngerða glundroðaleiðin. Forsvarsfólk þeirrar leiðar svífur um í hulduheimi og er meinilla við allar jarðbundnar skissur. Það stillir sér upp með palettuna uppfullt af guðdómlegum vitrunum, en liggur svo mikið á að tappa þeim út að allt lendir í einni og sömu flúorlogalitu sætsúpunni. Það má vera að listafólkið sé í grandaleysi að keppa við auglýsingaiðnaðinn um hylli augans. Það er í raun ekki ólíklegt að útgangurinn úr undirvitundarglassúrinu liggi inní meðvitaðan bakarofn auglýsinganna. Þannig eru forsendurnar frá upphafi á brauðfótum. Forsendur endurnýjunar og uppbyggingar í fagurlistum byggðar á samkeppni við benzínstöðvaskilti og hraðbitaumbúðir en ekki á vísindalegu endurmati vitundarinnar sem slíkrar. "Fjölmiðlalistamaðurinn" Les Levine hefur ýmislegt til málanna að leggja í þessu tilliti. Samkvæmt hans skilgreiningu þá lifum við í fjölmiðlaþjóðfélagi en ekki þjóðfélagi lista. Auglýsingar hafi sannað gildi sitt sem mun áhrifameiri miðill en miðaldaskólarnir og listamenn verði að taka mið af því. Þannig hefur Levine hannað fleka í auglýsingastíl og í vísitöluhlutföllum til notkunar í heimahúsum, keypt auglýsingatíma í sjónvarpi o.fl. þar sem hann hefur flett ofan af tilgerðarlegri og einfaldri heimsmynd auglýsinganna. Mesta hættan sem e.t.v. steðjar að ferskum freskum og sínýjum listtilbúningi er skipulagsleysi og óljós tilgangur. Í listum nútímans er allt talið leyfilegt og látið ótalið. Samt sem áður er það núinu ljósara að í flestum tilvikum hafa sköpunarverkin ekki gengið í gegnum þá eldskírn sem á öllum tímum hefur þótt nauðsynleg til þess að fá hlutdeild í sólinni. Sólin á jú hug okkar allan og það er kalt háð fólgið í þeirri staðreynd að því fleiri verk sem sýnd eru á opinberum vettvangi, þeim mun færri greypast í hugann sem NÝ LIST. Þrátt fyrir ævintýragirni og flúorlitar álfamyndir þá virðist nýlistin á ytra borði fremur vera að gera tilkall til hlutdeildar í næstu benzínstöð heldur en sólinni. Esso og Shell hanna sín skilti gagngert til þess að þau grípi athygli fólks þó það sé á 200 kílómetra hraða. Þeir fáu gestir sem heimsækja sýningarsali borgarinnar eru sem betur fer ekki svo hraðskreiðir og þess vegna ætti listamönnum alveg að vera óhætt að leggja fleiri en eitt augnablik í verk sín. Auðvitað vill oft teygjast úr meðvitundinni á augnabliki, en einungis fáir virðast megna að storka hringiðu eigin vana og annarra. Hin "meðvitaða" fagurlist er því sjaldnast meiri vitundarbreikkun en sú óútskýranlega tilhneiging Íslendinga að eyða allri sinni orku í benzínknúin reðurtákn. Ýmist leggja listamennirnir orku sína í að kópíera andartakshugdettur á öðru andartaki eða að þeir ástunda einskonar þerapíska líkamsrækt í litaorgíum. Einar Garibaldi Eiríksson, sem nýverið sýndi í Nýlistasafninu, er um margt dæmigerður fulltrúi skissukópíunnar. Hann lét sig ekki muna um það að taka heilan sal undir skissur á sýningu sinni, þrátt fyrir það að skissurnar væru lítið annað en smækkuð útgáfa af öðru verki. Téðar skissur höfðu þó flestar í sér neista frumhugmyndar sem stærri útgáfurnar síðan vantaði. Einar leikur sér með táknmyndir og lit og tekst oft að ná dýnamískri spennu í verk sín. Undirritaður er samt sem áður þeirrar skoðunar að skissur Einars búi yfir meiri galdri. Það er eins og vinnubrögðin þynnist út í akrýlnum og olíunni og það sem átti að verða aðalverkið verði því ekkert annað en vélræn stæling skissunnar. Skúlptúristum hættir til að skissa mikið og oft með betri árangri en málurum. Ég saknaði þess t.a.m. að sjá engar skissur á hljóðskúlptúrsýningu Finnboga Péturssonar, sem var á undan sýningu Einars í Nýló. Þó hugmyndin væri góð, þá var eins og vantaði einhvern snertipunkt gestsins við tilurð og tilgang verksins; skissur, ljósmyndir, frásögn o.þ.h. Í þessu sambandi mynnist ég sýningar Jonathans Borofsky í Nútímalistasafninu í Los Angeles fyrir tveimur árum. Þar sýndi Borofsky m.a. hljóðskúlptúra sem sögðu sjálfir sögu sína með aðstoð segulbandstækis. Einnig sýndi Borofsky feiknin öll af skissum sem gerðu ekki tilkall til þess að vera neitt annað en skissur, en greyptust engu að síður í minnið fyrir því. Hér skal að lokum getið eins fulltrúa hinnar myndrænu líkamsræktar, Sigrúnar Harðardóttur, sem sýndi litaorgíur í hinni nýopnuðu Nýhöfn í kringum páska. Olía Sigrúnar flýtur frjáls og óheft um flötinn. Það er helst í landgrunni þurrpastelsins að vinnubrögð eru markviss og minna á frumstæða grímugerð. Olíumyndir eins og "Kvartett," "Flugfiskar" og "Blá kona" eru að því leyti í svipuðum dúr og myndir Einars Garibalda í Nýló að myndbyggingin er óvenjuleg og dýnamísk og litirnir eins og á hraðbrautarmerki. Þetta eru fokheld skrauthýsi sem virðist vanta innréttingar. Má vera að sýningarsalur Nýhafnar hafi sín áhrif, hvað verkum Sigrúnar viðvíkur, því stofnanalegt marmaragólfið gæti ugglaust sett blæ bankaskreytingar á einföldustu barnateikningu. Sigrúnu tókst ívið betur upp með sýningarsvæði þegar hún "nam land" í Öskjuhlíð fyrir tæpum tveimur árum. En Öskjuhlíðin verður að líkindum lögð undir hraðbraut innan tíðar svo það er örugglega engin vanþörf á endurskinsmerkjum og götuvitum. |
|
< | > | ||