[ einar garibaldi eiríksson ]
eigin skrif >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
     
[ flogið yfir heklu ]
5. - litaspjald náttúrunnar /
sýningarskrá /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
2001 >

Við höfum kynnst því hvernig myndlistin kennir okkur að horfa. Nærtækt er að líta til Kjarvals og þeirra áhrifa sem verk hans hafa haft á skynjun okkar á náttúrunni. En það er ekki nóg að líta til gömlu meistaranna; því að hið sjónræna mat á náttúrunni er í stöðugri endurskoðun. Mikilvægt er að hvorki sjónrænt mat verka eins og « Litaspjald náttúrunnar » né annarra samtímaverka liggi í þagnargildi. Við verðum að afhjúpa dulúðina sem löngum hefur viljað loða við listaverk, til að geta tileinkað okkur þá þekkingu sem þau miðla okkur.
 
[ 5.1 ] Jóhannes S. Kjarval / Litaspjald / 1962 - 1963 / olía á striga / 30x40 cm. / Listasafn Reykjavíkur Sú tilhneyging er ríkjandi að líta á sjónrænt mat sem léttvægt eða annars flokks þekkingu. Til dæmis hefur afar lítið verið fjallað um þá sýn er birtist í verkum og ýmsum athugasemdum Kjarvals; en þeim mun meira gert úr frumlegum uppátækjum hans og skringilegheitum, að því er virðist til að gera lítið úr pólitísku og listrænu vægi hans.
[ 5.2 ] Helgi Sigurðsson / Skýringamyndir / um 1850 / úr handriti Helga "Ávísun um uppdráttar og málaralistina / Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Ritgerð Helga um "uppdráttar- og málaralistina" er elsta heimild um listkennslu sem til er á íslensku. Í henni er að finna ýmis skólabókardæmi um framsetningu og gerð myndlistar sem byggja á akademískum kennisetningum nítjándu aldar. Þar má meðal annars finna þessar skýringarmyndir á lögmálum fjarhvarfa, en sú uppfinning endurreisnartímans markaði mikilvægt spor í framsetningu raunveruleikans í myndlist.
[ 5.3 ] Hafdís Helgadóttir / Skynjun / 1995 / myndbönd, teikningar, þrír skjáir og kort I-III / 120x150 cm. / í eigu listamannsins { Hæg og tilviljanakennd hreyfing myndavélarinnar í samfelldri upptöku mótast af því að gera nærveru myndavélarinnar gagnvart viðfangsefninu sýnilega. Láréttar-, lóðréttar- og skáhreyfingar í myndböndum hlið við hlið, umbreyta stöðugt myndbyggingu og afstöðu milli skjánna. Uppdrættina má líta á sem framlengingu skoðunar eða áhorfs, abstraksjón raunverulegs hlutar í rauntíma. Það að teikna (að gera) sprettur af áhorfi og skoðun; sjónræn reynsla er framleidd og ummynduð í einhverjum miðli. Henni er gefin vídd sem, hugsanlega, breytir sýninni á hið upprunalega viðfang. } H.H. 1995.
[ 5.4 ] Jóhannes S. Kjarval / Heyþurrkur eftir Heklugos / olía á striga / 1947 - 1964 / 162x275 cm. / Listasafn Íslands Jafnvel í yfirstærðum er ekkert hetjulegt við málverk Kjarvals. Þau lýsa brothættri þekkingu sem hefur orðið til í löngu ferli tilrauna, mistaka og endurtekninga. Sú Hekla sem við stöndum frammi fyrir ber vitni um hvernig Kjarval verður að listamanni í gegnum skynjun sína á náttúrunni og gjörðina að mála.
[ 5.5 ] Georg Guðni Hauksson / Hekla / 1985 / olía á striga / 200x285cm. / Listasafn Háskóla Íslands Skynjun okkar á náttúrunni breytist ekki aðeins vegna hreyfinga okkar, veðurskilyrða, birtu eða hita heldur einnig vegna þeirra mynda sem tungumálið og menningin hafa skilið eftir í hugum okkar: {Ég mála fjallið með sjálfum mér / Ég mála sjálfan mig í fjallið / Ég mála fjallið í huganum.} G.G.H. 1987.
[ 5.6 ] Ásgrímur Jónsson / Hekla / 1927 / olía á striga / 110x140 cm. / Listasafn Íslands Sjónskyn okkar er mótað af sýn genginna kynslóða og veruleiki náttúrunnar er ekki lengur til nema sem mynd. Við uppgötvum hann með augum listarinnar og Hekla gerir hvað hún getur til að líkja eftir þeim myndum sem gerðar hafa verið af henni.
[ 5.7 ] Jón Stefánsson / Hraunteigar við Heklu / 1927 / olía á striga / 110x141 cm. / Listasafn Reykjavíkur Bæði Ásgrímur og Jón gerðu fjölda mynda af Heklu. Reglulegar ferðir þeirra á Hekluslóðir virðist tengjast persónulegri þráhyggju sem nær langt handan viljans til að fanga fjallið á léreftinu. Þráhyggju sem elur af sér sjónræna þekkingu.
[ 5.8 ] Helgi Þorgils Friðjónsson / Hekla / 1995 - 1997 / olía á striga / 45x55 cm. / í eigu listamannsins
[ 5.9 ] Karolína Lárusdóttir / Hekla / olía á striga / 93x105 cm. / 1995 / í eigu Heklu
[ 5.10 ] Snorri Arinbjarnar / Hekla / olía á striga / 60x70 cm. / án ártals / Listasafn Íslands
[ 5.11 ] Júlíana Sveinsdóttir / Hekla / olía á striga / 66x76 cm. / 1936 / í eigu Knúts Björnssonar
[ 5.12 ] Halldór Ásgeirsson / Getnaður Vesúvíusar og Heklu undir fullu tungli / aðfaranótt 6. júní / 2001 / logsoðið hraun / í eigu listamannsins Þegar brædd eru saman hraun úr tveimur af þekktustu eldfjöllum veraldar á sér stað efnafræðileg umbreyting sem er í senn persónulegt eldgos og táknrænn gjörningur sem vísar til mismunandi menningarheima.

^
2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]