[ einar garibaldi eiríksson ]
eigin skrif >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
     
[ flogið yfir heklu ]
3. - vegleysur /
sýningarskrá /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
2001 >

Á undanförnum árum hefur greinarmunurinn á náttúru og landslagi orðið að engu. Í kjölfarið hefur þráin um að sameinast náttúrunni leitt af sér ofurdýrkun á landslagsmyndinni. Framboð hennar hefur líka aukist í takt við eftirspurn. Eitt sinn voru það kirkjur og landshöfðingjar sem bjuggu yfir mættinum til að láta búa til myndir, en nú eru það stórfyrirtækin og framkvæmdaaðilarnir. Í meðförum þeirra verður landslagið næstum því jafn óraunverulegt og fáránlegt og klámmyndin. Einhæf notkun landslagsmyndarinnar getur verið mótandi og jafnvel ósiðleg. Við ættum kannski að banna landslagið með sama hætti og við bönnum klámmyndir!
 
[ 3.1 ] Flugleiðir / Menu / ómerktur matseðill / Flugleiðir Auglýsingaheimur nútímans byggir tungumál sitt á einföldum og fljótlesnum skilaboðum. Landafræði áhorfsins hefur smám saman breytt Heklu úr því að vera fráhrindandi yfir í að vera aðlaðandi og þar með opnað fyrir möguleika á því að nota ímynd hennar í tengslum við flugvélamat, sem verður eftirsóknarverður á augabragði.

[ 3.2 ] Hringur Jóhannesson / Náttúruskoðun {Paolo Rossi} / olía á striga / 1982 / Ríkisútvarpið Eitt meginstefið í verkum Hrings er rannsókn á tengslum manns og náttúru. Í verkunum birtist landslagið gjarnan út um gættir og glugga á byggingum eða farartækjum, en það var hans háttur á að vísa til upphafs landslagsmyndahefðar-innar. Fjarlægð eftirgerðarinnar er dregin fram í "spekúlasjón" um hvor standi okkur nærri; íþróttastjarna í beinni útsendingu eða "drottning fjallanna" handan við glerið.
[ 3.3 ] Hekla / Borðdagatal / hönnun, Birtingur Þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst var ekki óalgengt að myndir af Heklu eða Þingvöllum væru notaðar sem tákn fyrir sögu okkar og menningu. Í auglýsingum samtímans er náttúran tákn einhvers mun almennara; leikvallar frítímans eða afþreyingarinnar þar sem glötuð tengsl við náttúruna eru endurnýjuð. Þessi draumsýn birtist helst í myndaflóði fjölmiðlanna, meðal annars í jeppaferðum þar sem draumurinn um eilífa vist í náttúruparadís rætist fyrir tilstilli gljáfægðra farartækja sem skvetta úr drullupollum.
[ 3.4 ] Eimskip / Dagatal / 2000 / Ljósmynd © Ragnar Th. Sigurðsson
[ 3.5 ] Landsíminn / Símaskrá 2000 / mynd á forsíðu eftir Ásgrím Jónsson / hönnun, Nonni og Manni ehf. / Landsími Íslands Ímynd náttúrunnar er gjarnan notuð á allskyns kynningarefni stórfyrirtækja sem tengja vilja ímynd sína við allt hið jákvæða sem náttúran stendur fyrir í hugum okkar. Hekla er að þessu leyti tilvalin, í senn ímynd fegurðar, krafts og áræðis.
[ 3.6 ] Golli - Kjartan Þorbjörnsson / Hekla / 2000 / fréttaljósmynd / © Morgunblaðið
[ 3.7 ] Landsvirkjun / Spil / ómerkt kynningarefni / Landsvirkjun Íslands Matreiðsla náttúrunnar í fréttaljósmyndum, auglýsingum og allskonar kynningarefni einkennist af einhæfu verðmætamati efnahagslegra gæða. Landslagið er orðið að söluvöru.
[ 3.8 ] Íslands Banki / Seðlar / 10. krónur 1920 - 1939 / 7x12,3 cm. / 50. krónur 1904 - 1939 / 9,5x15 cm. / © Laxakort hf. / Hjá Magna
[ 3.9 ] Ásgeir Lárusson / Hekla 3. okt. 2071 / gifs / 24x23 cm. / 1997 / í eigu listamannsins Þegar markaðsvæðingu náttúrunnar lýkur er ekki annað eftir en að gera "injagripi" sem eru myndrænar útfærslur atburða sem geta átt sér stað einhvern tímann í ókominni framtíð.
[ 3.10 ] Georg Guðni Hauksson / Hágöngur / olía á striga / 75x200 cm. / 1995 / í eigu Guðmundar Ingólfssonar Ofurflæði upplýsinga og mynda sem á okkur dynur hefur smám saman gert okkur sljó gagnvart merkingu þeirra. Okkur hættir til að taka þeim sem gefnum og gleymum því að staðreyndin að mála mynd af eyðunni milli Háganga byggist ekki á tilfinningasemi einni saman, heldur er þar á ferðinni sjónræn ályktun sem krefst þess að vera tekin alvarlega.
[ 3.11 ] Landsvirkjun / Auglýsing vegna Hágöngulóns / 1999 / blaðaauglýsing / hönnun, Nonni og Manni Þegar umræðan um gerð Hágöngulóns stóð sem hæst birtust tvær athyglisverðar auglýsingar; annars vegar veggspjald frá verndarsinnum er lögðu áherslu á að vernda svæðið fyrir manngerðum lónum og hins vegar frá Landsvirkjun sem talaði fyrir framkvæmdum. Þrátt fyrir að málstaðurinn væri ólíkur notuðu báðir aðilar nákvæmlega sama tungumálið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.e. birtu myndir sem teknar voru "fyrir og eftir" að lónið var orðið að veruleika. Sá reginmunur var hins vegar á framsetningunni að annar aðilinn var greinilega með fæturna á jörðinni, á meðan hinn sveif hátt yfir umræddu landsvæði.
[ 3.12 ] Hálendishópurinn / Auglýsing vegna Hágöngulóns / 1999 / Ljósmyndir RAX og Guðmundur Páll Ólafsson / hönnun, Hvíta Húsið
[ 3.13 ] Svavar Guðnason / Hágöngur / 1947 / olía á striga / 130x97 cm. / Listasafn ASÍ Í kjölfar umræðu síðustu ára um náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda hefur verið stofnuð nefnd sem ætlað er að leggja fram hugmyndir um "sjónrænt mat" á náttúrunni. Nýlega lagði nefndin fram drög sem stefnt er að liggi matinu til grundvallar. Það kemur á óvart að greiningin tekur ekkert tillit til þess sjónræna mats sem fram hefur komið í listum heldur byggist það á sögulega tengdum smekkshugmyndum, sem hætt er við að breytist fljótlega í skiptimynt í viðskiptum við framkvæmdarvaldið.

[ 3.14 ] Eyjólfur Einarsson / Hverfill / 2000 / olía á striga / 170x240 cm. / í eigu listamannsins Ef menning okkar sér aðeins það landslag sem er þjóðhagslega hagkvæmt hverju sinni, þá munum við innan skamms standa frami fyrir því landslagi sem við eigum skilið.
[ 3.15 ] Hallgrímur Helgason / Frí '00 / 2000 / stafrænt prent á striga / 170x327 cm. / Listasafn Reykjavíkur Sumarbústaðurinn er hannaður utan um sjóndeildarhringinn. Honum er ætlað að færa náttúruna heim í stofu, þar sem við getum notið hennar áreynslulaust án þess að fórna nokkru af þeim þægindum sem menningin býður upp á.

^
2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]