[ einar garibaldi eiríksson ]
eigin skrif >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
     
[ flogið yfir heklu ]
1. - af niðursuðu /
sýningarskrá /
listasafn reykjavíkur - kjarvalsstaðir /
2001 >

Í ritgerð sinni um verk Kjarvals sem Helgafell gaf út árið 1950, fjallaði Nóbelsskáldið meðal annars um breytta sýn okkar til náttúrunnar: "Nútímamálari sér ekki leingur fjöllin á vángann úr lángri fjarlægð, fjarlægð þeirra er ekki framar rómantísk; það er orðið of auðvelt og fljótgert að komast að þeim, umhverfis þau og - uppfyrir þau. Bláleit þúst ofarlega í myndfleti er ekki leingur fullgild tjáning fjalls. Þegar komið er uppá Heklu þá er Hekla hætt að vera fjall; og ef farið er í flugvél yfir Heklu þá er hún orðin hola ofaní jörðina, gígur." Í upphafsorðum sömu ritgerðar varpar Laxness fram spurningunni: "Hvert var það undur sem rak úngan svein á afskektu landshorni fyrir fimtíu árum til að fara búa til málverk?" Svarið felst ef til vill í orðum Kjarvals sem lýsti því eitt sinn yfir að það hefðu verið litríkar myndskreytingar utan á niðursuðuvarningi sem kveiktu áhuga hans á að fara að búa til myndir.
 
[ 1.1 ] Kristján Magnússon / Kjarval að störfum / Ljósmyndir / 35x45 cm. / Um 1950 / Myndasafn Morgunblaðisins
Kjarval hefur löngum verið þekktur fyrir sérstaka nálgun sína við náttúruna. Mikilvæg forsenda málverka hans er að hann starfaði í nálægð við hana. Nálægð sem skapaði gagnkvæm tengsl og þroskuðu sjálfstæða sýn hans og skilning sem listamanns. En ekki má gleyma að nærvera landslagshefðarinnar, þjóðfélagsins og niðursuðudósanna hafði ekki síður áhrif á sýn hans. Það verður því seint hægt að líta á landslagsmyndina sem einfalda eftirmynd af náttúrunni.
[ 1.2 ] Þórarinn B. Þorláksson / Hekla úr Laugardal / Olía á striga / 45x65 cm. / 1917 / Listasafn Íslands
Um það leyti sem íslenskir menntamenn kynntust erlendri borgarmenningu fyrir alvöru, ásamt rómantískri skáld- og myndhugsun, eignuðumst við okkar fyrstu landslagsmyndir. Eftirtektarvert er að fyrstu íslensku landslagsmyndirnar eru leiktjöld Sigurðar Guðmundssonar málara við leikverkið "Útilegumennina" eftir Matthías Jochumsson, sem var frumsýnt 1862. Landslagið í íslenskum málverkum var því upphaflega hugsað sem vettvangur ákveðinna atburða fremur en sjálfstætt viðfangsefni, en síðar færðist það smám saman frá því að vera hlutlaus bakgrunnur til senuþjófs. Sama þróun átti sér stað á Vesturlöndum, nokkrum öldum fyrr.
[ 1.3 ] Ásgrímur Jónsson / Á bökkum Þjórsár / Olía á striga / 45x65 cm. / 1921 / Listasafn Reykjavíkur
Landslagsmyndir búa ætíð yfir einhverju duldu táknmálskerfi sem tengist í senn goðsögnum fortíðar sem væntingum tímans sem elur þær af sér. Göfgun hins séríslenska í náttúrunni, ásamt upphafningu fólksins sem lifði og stafaði í landinu var einn liður sjálfstæðisbaráttunnar. Mynd hjarðdraumsins var dregin upp í anda Jónasar Hallgrímssonar, þar sem strit mannsins er hafið upp til skýjanna og gjöfulleiki landsins ýktur með hreinleika blámans og skærri litanotkun: {Þú stóðst á tindi Heklu hám / og horfðir yfir landið fríða, / þar sem um grænar grundir líða / skínandi ár að ægi blám...}
[ 1.4 ] Jón Stefánsson / Konur horfa til Heklu / Olía á striga / 40x50 cm. / 1931 / Listasafn Reykjavíkur
Í sjálfstæðisbaráttunni litu brautryðjendurnir á merkisstaði, eins og Heklu og Þingvelli, sem merkingarþrungnar táknmyndir. Náttúrufegurðin ein réði því ekki vali þeirra á viðfangsefni heldur einnig möguleikinn á að virkja fegurðina sem tungumál í ákveðnum tilgangi. Þessi hernaðarlist leiðir til meðvitundar um myndina, þar sem listamaðurinn notfærir sér með einbeittum hætti mátt hennar og virkni.

^
2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]