[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ færur ]
bragi ásgeirsson /
morgunblaðið /
1997 >
Það var með nokkurri tilhlökkun sem rýnirinn nálgaðist sýningu á ítalskri samtímalist í Nýlistasafninu. Ítalir hafa staðið framarlega um nýsköpun í myndlist á öldinni, jafnt á heimaslóðum sem í París, og er Tvíæringurinn í Feneyjum hér til vitnis, ásamt fjölda framúrskarandi einstaklinga sem verið hafa í fylkingarbrjósti.

Hins vegar mun minna um vegleg núlistasöfn á landinu en víðast hvar norðar í álfunni og ítalskir listaskólar hafa ekki verið sérlega hátt skrifaðir til þessa, en góðir vinnustaðir sumir hverjir. Aftur á móti er landið gullnáma erfðavenju aftur í fornaldir, miðaldir og endurreisn, sem listamenn, innlendir og erlendir hafa ausið af í aldanna rás. Ítalir hafa svo ekki verið hræddir við að leita til fortíðar og rækta ímynd sína, og sú safaríka hefð gerði ítalskan módernisma fyrri hluta aldarinnar ferskan og sérstakan, jafnframt þær hræringar og uppstokkanir á seinni helmingnum sem heyra undir hugtakið samtímalist eins og það er víðast skilgreint. Nægir að benda á hliðstæður Nýlistasafnsins erlendis sem eru söfn samtímalistar, þó að því undanskildu að það eru stofnanir er standa undir safnheitinu, eru ekki sýningarsalir einvörðungu.
Samtímalist ber ekki að rugla alfarið við tilraunastarfsemi og nýjungar dagsins, eða það sem er tímabundið í náðinni hjá sýningarstjórum, frekar en að menn séu í síbylju að kynna ákveðna tegund af list gærdagsins, fjölbreytni og sveigjanleiki, flexiblitet, skal það vera.
Þetta sett fram hér vegna þess að sýningin sem hér er á dagskrá, bregður einungis upp mynd af brotabroti ítalskrar samtímalistar og af þeirri tegund sem sjá má í öllum sýningarsölum stórborga Evrópu, og það ekki jafnaðarlega af hárri gráðu. Landamærin hafa verið þurrkuð út, einstaklingurinn og persónueinkenni hans ekki til, hugtakið hefð leyst upp í frumparta sína. Hér er draumsýn, harðsoðin útópía, franskra fræðikenningasmiða eftirstríðsáranna komin aftur en í mun stærra og altækara samhengi. Listamenn beggja vegna Atlantsála gerðu uppreisn gegn slíkri leiðsögn, því hún er í andstöðu við mál- og athafnafrelsi einstaklingsins, og hin yfirþyrmandi heimspeki og útjöfnunarárátta sem fylgir slíkri miðstýringu meira heilaþvottur og hópefli en lífræn samræða, dialóga. Sjónlistir eiga að vera eitthvað meira og blóðríkara en heimspeki, tillærðar formúlur og endurtekningar þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Vísað er til þess, að verið sé að róta í hefðinni, en hin frjálslega notkun miðla takmarkast af því sem allstaðar sést á svipuðum framkvæmdum. Hér eru ljósmyndir, innsetningar, gjörningar og hugmyndafræði í bland, en mun síður er stokkað upp í hefðinni með sígildum miðlum og vinnubrögðum, þar sem hugarflugið mannlegar kenndir og hugsæi ræður ferðinni. Það má finna ákveðna og sterka skírskotun í sumum verkanna og þá helst í verkum Ferdinando Ferrario, sem prentar dýr á segldúka og strengir þá svo upp og svo Vetrarbraut Ceciliu Guastarobu, sem er langur dúkur dreginn upp úr ferðatösku. Er í samræmi við heiti sýningarinnar, Sposamenti, og einkunnarorð, menningarlegur farangur, "Bagaglio Culturale".
Trúa mín er, að sýningin Færur (Sposamenti), svari naumast spurningunni hvað raunverulega sé að ske í ítalskri samtímalist, né í hverju sé verið að róta, nema í afar þröngum skilningi. Hún stefnir ei heldur að því að vera þverskurður ítalskrar listar, nær aukinheldur naumast að draga fram umtalsverð ítölsk einkenni. Telst frekar brotabrot alþjóðlegra hræringa sem flæða yfir og þannig séð á hún meira skylt við viðurkennda og skjalfesta salonlist síðustu aldar heldur en ný augu, nýja sýn, ­ ferskt hugsæi á fjölbreytileikann allt um kring.
Afar einföld handhæg og upplýsandi sýningarskrá liggur frammi og ritar sýningarstjórinn, Einar Garibaldi Eiríksson, skilgreinandi formála er hann nefnir "Færur" og svo er lengri fræðileg grein eftir Ólaf Gíslason, er hann nefnir "Frá útópíunni til heterotópíunnar".

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]