[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
     
[ einar garibaldi ]
bragi ásgeirsson /
morgunblaðið /
1988 >
Það er alltaf upplífgandi að vita menn fara sínar eigin leiðir í framhaldsnámi í listum, þótt sumir staðir séu öðrum viðurkenndari. Málið er einfaldlega, að þegar menn hafa náð svo langt, að þeir treysta sér í framhaldsnám í listaháskólum ytra, þá skiptir vinnuaðstaðan og viðhorfin öllu meira en staðsetningin.

Nútíma listaháskólar búa flestir yfir svo ágætum verkstæðum hinna mismunandi hliðargreina, sem nemendur geta sótt í, að sjálfstætt nám og vinnuagi skiptir meginmáli um velgengni viðkomandi, en ekki rétta staðsetningin. Sá sem er staddur einhversstaðar á meginlandi Evrópu á hvarvetna kost á að skoða gullnámur eldri sem nýrri lista, hafi hann framtak til þess, og það er nákvæmlega jafn mikil íhaldsemi að halda að viðkomandi einhverri sérstakri grein núlista og eldri list. Minnumst þess einnig, að núlistir aldarinnar eru meira og minna byggðar á ævafornum gildum úr austri og vestri svo og myrkviðum Afríku að viðbættu evrópsku hugviti.
Einar Garibaldi Eiríksson kaus að stunda framhaldsnám í Brera-listaháskólanum í Mílanó, þar sem hann er nú á öðru ári á málunardeild. Hann virðist vinna af miklum dugnaði og alvöru, svosem sýning sú ber vott um, sem hann heldur á nýjum verkum í húsakynnum Nýlistasafnsins öllum sölunum.
Hann fer þannig svipað að og söngvararnir í gamla daga, sem voru við nám í Mílanó og Róm og tróðu gjarnan upp í Gamla Bíó, er þeir voru staddir heima í sumarleyfum. Sá tími er löngu liðinn, að það þótti mikil frétt, er þessir menn tylltu hér tá í miðju námi, enda heimurinn miklu stærri í þá daga og þetta voru eiginlega poppstjörnur tímanna.
Ekki veit ég, hvers konar stofnun Brera-listaháskólinn er, en hitt veit ég, að listasöfnin eru þar frábær hvort tveggja, Brera pínakótekið (málverkasafnið) svo og Borgarlistasafnið.
En eins og ég minntist á, þá skiptir mestu máli að vera athafnasamur á öllum vígstöðvum - einangra sig hvergi og láta að auka ekkert gleypa sig. Og ekki má gleyma því, að mesta velgengni, sem listamaður getur óskað sér, er að fá útrás fyrir listsköpun sína og frið til að sinna henni, en ekki hinn svonefndi tímalegi frami á listamarkaði slíkt er allt annar handleggur.
Af myndverkum Einars Garibalda að dæma þá hefur hann orðið fyrir nokkrum áhrifum þar syðra og þá helstu í mun þýðari og samkvæmari litameðferð en áður. Hins vegar er myndefnið ekki svo ýkja frábrugðið né heldur öðruvísi því, sem ungar listspírur eru að gera norðar í Evrópu og jafnvel einnig sunnar, þótt ekki sé það innan veggja listastofnana. Þó er réttað gaumgæfa það, sem verið er að gera innan þeirra tæknilega séð, því að ýmsir nafnkenndir núlistamenn hagnýta sér grimmt eldri tækni.
Það er annars merkilega sterkur norrænn blær yfir sýningu Einars, viss þráhyggja og innhverf nostalgia - leit að eigin sjálfi í framandi umhverfi. En eigið sjálf finnur maður einmitt með því að hleypa heimdraganum í öllum skilningi - þverstæðan er, að því lengra sem maður leitar út frá eigin sjálfi því meir nálgast maður það. Túnið heima finnur maður þannig frekar í útlandinu - eða uppgötvar það öllu heldur.
Það er ljóst af sýningu Einars, að í honum býr sterkur norrænn strengur, sem minnir fyrir sumt á Munch og fleiri norræna myndlistarmenn. Hann er í mikilli sókn, hvað myndræna hugsun áhrærir, og heldur vonandi áfram sínu striki án þess þó að einangra sig, því að málverkið er stór heimur - vel að merkja...

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]