[ einar garibaldi eiríksson ]
annað >
heim | verk | sýningar | myndraðir | ferilskrá | annað | english
sýningarstjórn | eigin skrif | umfjöllun | útgáfa | vinnustofa | krækjur | leiðsögn


 
[ röð atvika ]
tilraun til gagnrýni /
óbirt /
2000 >
Vagninn var enn í kyrrstöðu, farþegarnir höfðu komið sér fyrir, sumir standandi, aðrir sitjandi. Það var þröngt á þingi og einhver stórborgarbragur hvíldi yfir gráklæddum farþegunum sem héldu flestir í eitthvað lauslegt til að detta ekki.

Nú birtist vagnstjórinn og hengdi upp Sextíuogsexgráðu úlpuna sína áhyggjufullur á svip; hann leit aftur eftir vagninum, veifaði skiftimiðamaskínunni og sagði í viðvörunartón: "Ég ætla bara að minna ykkur á að haga ykkur sómasamlega; ég er nýbúinn að hvítþvo vagninn og vil enga skanka upp með veggjum"! Vagninn ryktist af stað og farþegarnir litu hver til annars flissandi.

Á næstu stöð bættust nýjir farþegar í hópinn; sundurleitur hópur ungs fólks sem leit út fyrir að geta verið á hvaða ferðalagi sem er. "Gjörið svo vel og farið aftar í vagninn!"; þrumaði vagnstjórinn um leið og hann skoðaði Grænu kortin. Þetta var einstaklega prakkaralegur hópur og á máli þeirra mátti heyra að þau voru upptekin af því að finna taug á milli sín og samtímans. Fljótlega kom í ljós að fyrir þeim fór maður að nafni Matthías; en auk þess að bera með sér ákveðin heilagleika, rökræddi hann stöðugt um mikilvægi þeirrar tilraunamennsku að tengjast tímanum með hæfilegri blöndu af "eiginlegri" fræðimennsku, frásagnarbrotum og hugleiðingum þar sem fræðileg og persónuleg efnistök rynnu saman í eitt. Undir þetta sjónarmið tók Bolvíkingurinn í hópnum og greinilegt var að aðrir farþegarnir stálust til að hlusta á hann segja frá aðdragandanum að Ísbirninum í morgunsárið.

Vagnstjórinn lækkaði í Þjóðarsálinni, ræskti sig og tilkynnti: "Ferðin ætti ekki að taka of langan tíma, en ef að einhver vildi, þá væri hann með Haltu kjafti brjóstsykur á kostnaðarverði." Nýjir farþegar bættust nú í hópinn; tveir farangursmiklir kumpánar, annar með kassa fullan af gömlum ljósmyndum á meðan hinn dró snjáðan posa á eftir sér, merktan Baudelaire safninu í París. Vagninn tafðist á meðan þeir leituðu að fargjaldinu, enda virtust þeir ekki vita hvert förinni væri heitið né hversu lengi þeir ætluðu að vera á ferðalagi. Eftir að þeir höfðu komið sér fyrir fóru þeir að skoða ljósmyndirnar og virtist mikið niðri fyrir, áhugi þeirra á innihaldinu var óslökkvandi og vöktu lífleg orðaskipti þeirra um Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar eftirtekt á meðal farþeganna. Rödd þess er gekkst við nafninu Markús var ákaflega kunnugleg; hann hló eins og vængjað ljón og reyndist sérfróður um þýska orðsifjafræði. Á meðan vitnaði Posinn stöðugt til franska stórskáldsins.

Þeir kumpánar héldu áfram að mala um hið smáa í hinu stóra og hið stóra í hinu smáa á meðan vagnstjórinn dró úr ferðinni. Á næstu stöð bættust tveir nýjir farþegar í hópinn; krúnurakaður eða sköllóttur náungi sem las ótt og títt úr einhverjum blaðabunka sem hann hafði meðferðis og kona sem líklega var á leiðinni í Endurvinnslustöðina, því hún var með risahugleiðingabólu í eftirdragi. Einhver óraunveruleikablær fylgdi þeim; hann virtist einna helst vera dauf eftirmynd sjálfs sín, þar sem hann teigaði á svarlitaðri tálmynd ofurraunveruleikans úr fjöldaframleiddu líkneski. Konan virtist svífa um í Skugga aldamótanna og kallaði stöðugt til hans: "Jóhannes, Jóhannes...", en hann virtist týndur, spólaði afturábak og endurtók í sífellu: "Frá eftirlíkingu til eyðumerkur, frá eftirlíkingu til eyðimerkur..."

Vagninn var nú kominn á nokkuð gott flug þegar ofurraunveruleiki hins póstmóderníska ástands opinberaðist farþegum í skyndingu. Upp úr þurru birtist leðurklædd Sæborg vopnuð Atvikum hins daglega brúks. Þessum tólum beitti vélveran sem verkfæri til að skilja umhverfi sitt, breyta því og umskapa. Hún mataði farþegana á Marglitu grjóti og ástandið í vagninum minnti nú einna helst á hina guðdómlegu frávísun myndanna.

Vagninn var nú kominn út á endastöð en farþegar voru ekki á eitt sáttir með að yfirgefa hann, því þeir vildu halda áfram samræðum sínum; vagnstjórinn leysti vandann með því að aka hópnum niður í Hús málarans. Þegar eftirlegukindur hinnar fullkomnu eftirmyndar höfðu komið sér fyrir á barnum líkt og lærisveinarnir við hina síðustu kvöldmáltíð, stóð hárprúði útvarpsmaðurinn upp og hrópaði: "Einn af ykkur hefur svikið mig". Í Leonardískum anda litu viðstaddir hver á annan í fullkomnum skilningi á alvarleika augnabliksins; og í rökkrinu hélt maður um perulagaðan pung sinn og fann á sér að skuggi sinn væri skuggi Júdasar.

 
     
  < | >  
     


2024 © [ einar garibaldi eiríksson ]