[ einar garibaldi eiríksson ]
gagnrýni >
heim | verk | sýningar | ferilskrá | umfjöllun | eigin skrif | annað | póstur | english
< | >
   
[ á safninu sjálfu ]
jón proppé /
morgunblaðið /
2000 >
Í Nýlistasafninu hefur verið opnuð sýning þar sem tekist er á við hið mikla og kaótíska safn listaverka sem þar hefur hrannast upp á þeim rúmlega tuttugu árum sem félagið hefur starfað.

Þegar Nýlistasafnið var sett á laggirnar var gert ráð fyrir því að hver sá listamaður sem væri meðlimur í safninu gæfi til þess eitt listaverk á ári; seinna var reglunni breytt og sagt að gefa ætti eitt verk á fimm ára fresti. Auk þessa hafa ýmiss konar listaverk gegnum tíðina endað í geymslum Nýlistasafnsins án þess að nokkur kunni endilega skýringu á því. Sumt hefur gleymst á sýningum eða verið skilið eftir, sumt hefur verið gefið og sumt hefur kannski lent á safninu af því að enginn vissi hvar annars staðar það ætti heima. Niðurstaðan af þessari tuttugu ára söfnun er að Nýlistasafnið á líklega mörg þúsund listaverk en enginn veit með nokkurri vissu hvað er hvað, hver saga verkanna er eða hvað eigi að gera við þau. Þess vegna hefur nú verið brugðið á það ráð að sýna þau.
Líkt og ofangreind lýsing er sýningin í léttum dúr og tekur þannig mið af því hvernig listaverkaeign Nýlistasafnsins hefur byggst upp. Í stað þess að reyna að flokka safnið, búa til þema og byggja þannig upp sýningu hafa verið fengnir til verksins fimm sýningarstjórar sem gefnar eru frjálsar hendur við að túlka safneignina. Það eru þau Alda Sigurðardóttir, Benedikt Kristþórsson, Einar Garibaldi Eiríksson, Ingirafn Steinarsson og Sigurbjörg Eiðsdóttir. Hvert þeirra hefur gramsað gegnum safnaeignina og fundið sína nálgun við þá sögu sem þar er geymd og spannar framsækna íslenska myndlist allt aftur til SÚM-tímans, auk margra og oft dularfullra gripa eftir erlenda listamenn.
Ingirafn hefur gripið á það ráð að láta taka röntgenmyndir af ýmsum verkum í safninu og geta gestir þannig skoðað innri byggingu listarinnar á ljósaskermi. Einar Garibaldi sýnir verk ýmissa listamanna án þess að taka þau úr umbúðunum sem þau voru flutt í til safnsins. Benedikt Kristþórsson fjallar um Dieter Roth með því að sýna ekki grafíkmynd sem safnið á eftir hann. Sigurborg sýnir verk úr safninu og myndir af fólki með verkin í fanginu. Alda tekur síðan á innheimtustefnu safnsins með því að hafa samband við stofnfélaga og sýna eftir þá bæði gömul og ný verk.
Safnaeign Nýlistasafnsins er mikil og fjölbreytt og henni verða líklega seint gerð tæmandi skil en hér er tekist á við hana á frumlegan og skapandi hátt. Uppsetning sýningarinnar lýsir í senn ást og virðingu sýningarstjóranna fyrir safninu og hæfilegum húmor sem er ómissandi þegar tekist er á við sýningarverkefni af þessu tagi. Aðferðin sem hér er beitt - að fá til verksins fimm utanaðkomandi listamenn sem hver tekst á við verkið á sínum forsendum - gengur vel upp og skilar sér í skemmtilegri og forvitnilegri sýningu. Þetta er sýningarform sem vel mætti hugsa sér að beita á fleiri söfnum, til að mynda á Listasafni Íslands þar sem safnasýningar hafa undanfarið verið frekar blóðlitlar. Það er ástæða til að hvetja alla listunnendur til að drífa sig í Nýlistasafnið og kynnast þeim fjársjóðum listarinnar sem þar eru geymdir en fá því miður allt of sjaldan að sjást.

^

2008 - 2013 © [ einar garibaldi eiríksson ]